Þakkarbréf norðurbær suðurbær

Uppgjör mótsins
05.09.2009
Norðurbær – Suðurbær, mótsnefnd!
25.07.2010
Sýna allt

Þakkarbréf norðurbær suðurbær

Undirbúningsnefnd Norðurbæjar-Suðurbæjar vill koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt í frábæru fótboltamóti og stórskemmtilegri saltfiskveislu föstudaginn 28. ágúst síðastliðinn, þátttakendum, áhorfendum, mótsstjórn, styrktaraðilum, dómurum, Smára og Selmu á www.245.is, Henson, starfsfólki í veislu og Sandgerðisbæ. Sérstakar þakkir fá kynnir mótsins Jón Norðfjörð, gestur kvöldsins Árni Johnsen, hugmyndasmiðurinn Jónas Þórhallsson og matreiðslusnillingurinn Guðmundur M. Stefánsson.
Óhætt er að segja að þátttaka hafi verið framar öllum vonum því kl. 16:05 á mótsdag gengu 87 leikmenn og 2 dómarar inn á völlinn undir söng Ómars Ragnarssonar um „Jóa Útherja“. Áhorfendur fjölmenntu á völlinn þrátt fyrir norðangarra og urðu vitni að mikilli skemmtun. Leikmenn komu víða að og óhætt að segja að þarna hafi verið saman komnir þó nokkrir leikmenn sem ekki hafa reimað á sig takkaskóna í fjöldamörg ár. Gaman er að minnast á Jónharð Jakobsson frá Færeyjum sem mætti á mótið ættingjum sínum til undrunar og ánægju, Ágúst Karlsson sem kom frá Danmörku og Óskar S. Magnússon sem kom alla leið frá Bandaríkjunum. Þá vakti framganga Aðalheiðar „Diddu“ Reynisdóttur mikla athygli en hún spilaði í yngri flokki mótsins og lét „hvolpana“ finna til tevatnsins svo um munaði. Gaman var að sjá þátttakendur týnast inn í Reynisheimilið einn af öðrum áður en mótið hófst, gleði og eftirvænting skein úr hverju andliti.
Að keppni lokinni fengu allir þátttakendur vegleg verðlaun, Lýsi hf. gaf öllum lýsi og liðamín sem án efa hefur komið sér vel til að mýkja lúna liði og liðka stirð bein.
Að loknu vel heppnuðu knattspyrnumóti var haldin saltfiskveisla í boði Stakkavíkur og Íslensks Sjávarfangs í sal Reynisheimilisins. Þar komu keppendur saman ásamt mökum, alls tæplega 130 manns. Gaman var að sjá Reynisheimilið iða af lífi og þessi frábæra kvöldstund var óhrekjanlegur vitnisburður um að félagið er stærra en margur heldur og Reynishjartað slær ansi víða. Mönnum varð tíðrætt um að í hópinn þennan dag vantaði ansi marga gamla jálka og menn skyldu ekki komast upp með að láta sig vanta að ári liðnu. Það er því ljóst að þessi stórviðburður er kominn til að vera á Sandgerðisdögum og markmiðið er að fjölga enn þátttakendum á næsta ári.
Skráning fyrir mótið að þessu sinni var með þeim hætti að undirbúningsnefnd hefur nú komið sér upp góðum gagnabanka með heimilisföngum, símanúmerum og tölvupóstföngum allra þeirra sem tóku þátt. Þeir sem ekki gátu tekið þátt að þessu sinni geta komist á póstlistann okkar með því að senda upplýsingar á [email protected]
Nefndin er hæstánægð með það hvernig til tókst, jákvæðnin var mikil og fólk boðið og búið að leggja málefninu lið. Sérstaklega er gaman að geta þess að hluti keppenda sá um að flytja borð, stóla, hnífapör og glös úr Samkomuhúsinu yfir í Reynisheimilið fyrir saltfiskveisluna og aftur til baka. Þetta var stórt og mikið verkefni sem reyndist létt og löðurmannlegt þegar margar hendur komu saman.
Nú þegar eru komnar margar góðar hugmyndir að skipulagi næsta árs og strax er byrjað að leggja línurnar fyrir næsta mót. Allar hugmyndir eru vel þegnar! Verum dugleg að hvetja allt Reynisfólk nær og fjær til að fjölmenna á mótið að ári.
Bestu þakkir til ykkar allra með tilhlökkun til næsta móts.
Smellið hér til að skoða myndir frá mótinu.

Undirbúningsnefndin,
Sigursveinn B. Jónsson, Jón Bjarni Sigursveinsson og Daði Bergþórsson.