Óskar Gunnarsson

Óskar GunnarssonÞað er Óskar Gunnarsson sem tekur við Skallaboltanum af Jónasi Þórhallssyni en hann skallaði boltann laglega í síðasta Skallabolta.

Óskar lék með mfl. Reynis á árunum 1960-1975 og er einn af þeim alhörðustu sem Reynir Sandgerði hefur alið af sér í fótboltanum. Var fyrirliði lengstum og mikill leiðtogi á vellinum.

Bæjarmálin áttu hug hans í rúma tvo áratugi og hefur hann átt sinn þátt í uppbyggingu þeirrar glæsilegu aðstöðu sem Knattspyrnudeild Reynis hefur yfir að ráða í dag en hún þykir með þeim glæsilegri á landinu.

Við skulum skella okkur í leikskýrslu Óskars.

Fullt nafn?
Óskar Gunnarsson

Gælunafn?
Óskar

Aldur?
67 ára

Giftur/sambúð?
Giftur Sólrúnu Mary Vest Joensen

Börn?
Við eigum 3 syni: Gunnar Jakop, Arnar og Atla Ragnar. Við eigum líka þrjár yndislegar tengdadætur, svo eigum við ellefu gullmola sem eru barnabörnin okkar tíu og eitt barnabarnabarn.

Foreldrar?
Gunnar Júlíus Jónsson og Rannveig Guðlaug Magnúsdóttir

Hvar varstu alinn upp/búsettur í Sandgerði/búsettur núna?
Ég fæddist og ólst upp á Reynistað (Stafnesvegi 10) hér í Sandgerði, við hjónin höfum búið frá 1965 að Stafnesvegi 16 eða allan okkar búskap. Það má því segja að ég sé á sömu þúfunni og ég fæddist á.

Óskar Gunnarsson

Óskar að fara inn í bifreið sína eftir kappleik en til gamans má geta þess að þetta er bifreiðin sem Jónas minntist á í sínum skrifum.

Norðurbær eða Suðurbær?
Að sjálfsögðu Suðurbærinn

Hvaða stöðu spilaðirðu?
Ég byrjaði sem hægri útherji, svo með árunum þegar hraðinn minnkaði, árum og kílóum fjölgaði þá færðist ég aftar á völlinn og spilaði lengst af mínum ferli sem miðvörður (hafsent).

Hvenær lékstu þinn fyrsta meistaraflokksleik?
Það var líklega (15 ára) 1960

Með hvaða liðum lékstu á ferlinum?
Ég lék alltaf með Reynir,  mér var boðið að ganga til liðs við K.F.K. í Keflavík ég man ekki hvaða ár það var (1965-1970) en því hafnaði ég (eðlilega á þeim tíma) sem sannur Reynismaður.

Óskar Gunnarsson

Óskar og Jonhard á góðri stundu

Hvað skoraðir þú mörg mörk á ferlinum?
Það hef ég ekki hugmynd um, en ég tók flestar vítaspyrnur fyrir liðið á seinni hluta ferilssins, þannig að ég gerði slatta af mörkum fyrir félagið (enda nokkuð góður í vítum að eigin áliti he – he)

Veistu hve marga leiki þú spilaðir í mfl.?
Nei það veit ég ekki en í þá daga var ekki spilað eins þétt og er í dag

Eftirminnilegasta dómaraatvikið?
Það eru helst ýmsar uppákomur sem urðu til þegar svokallaðir heimadómarar voru að dæma. Eitt sinn var heimadómari (við nefnum engin nöfn) að dæma leik hjá okkur þá braut Reynismaður dálítið hressilega á mótherja en ekki var flautað, upphófust þá mótmæli við dómarann sem stoppaði þá leikinn og rak einn leikmann andstæðinganna útaf sem ekki hafði sagt orð í látunum, en hann var nokkuð góður leikmaður.

Eskild var heiðursfélagi í Reynir

Eskild var heiðursfélagi í Reynir

Eftirminnilegasta markið sem Reynir skoraði?
Mér er nú ekki ekki efst í huga neitt eitt sérstakt mark það eru nefnilega öll mörk mjög mikilvæg, sérstaklega á þeirri stund þegar þau eru skoruð.

Eftirminnilegasta markið sem Reynir fékk á sig?
Hvað þetta varðar þá er ég sammála Jónasi Þórhallssyni það er markið sem Ísfirðingarnir gerðu með hendinni í úrslitaleik á Melavellinum 1973 og við töpuðum leiknum 1-0

Varstu hjátrúarfullur fyrir leiki og hvernig þá?
Já, það má kannski segja það. Ég var til dæmis alltaf í hvítum bol (helst sama bolnum) undir búningnum, fótboltaskóna bustaði ég aldrei bara þvoði þá, eitt sinn þegar ég mætti í leik og fer að tína upp dótið úr töskunni þá eru skórnir stíf bustaðir svo að ég nánast gat speglað mig í þeim. Þá hafði konan mín þessi elska ætlað að gera vel og láta mig líta vel út á vellinum í nýbustuðum skóm. Það þarf ekki að orðlengja það að í kjölfarið kom minn lélegasti leikur, og mig minnir meira að segja að ég hafi líka klúðrað víti sem gerðist ekki oft.

Óskar Gunnarsson

Reynir Sandgerði 1968.
Aftari röð frá vinstri: Þórhallur Stígsson þjálfari og leikmadur, Sveinn Þorkelsson, Óskar Gunnarsson, Einar Sigurðsson, Gunnar Sigtryggsson. Kári Sæbjörnsson, Jonhard Vest Jákupson, Noel írskur leikmaður sem vann í Miðnes og lék med Reynir þetta ár, Eskild Johannson.
Neðri röð frá vinstri: Óskar Einarsson,Axel Jónsson,Reynir Óskarsson, Gústaf Ólafsson, John Ek Hill og Sigurður Þ Jóhannsson.

Hvaða liði hefðir þú ekki getað hugsað þér að spila með?
Víðir Garði.

Erfiðasti andstæðingur?
Víðir Garði.

Auðveldasti andstæðingur?
Grindavík

Eftirminnilegasti samherjinn?
Henrik Jóhannesson (Eskild) Stórkostlegur karakter bæði innan vallar sem utan, það er rétt að geta þess að hann var rúmlega fimmtugur þegar hann lék sinn síðasta leik með Reyni.

Eftirminnilegasti leikurinn?
Á Melavellinum 1973 í úrslitaleik við ÍBÍ (sjá frásögn Jónasar Þórhalls)

Mestu vonbrigðin?
Á Melavellinum 1973

Grófasti samherjinn?
Johnhard Vest lék alltaf með hjartanu.

Óskar Gunnarsson

Mynd tekin í Færeyjum. Frá vinstri: Sólrún Vest, Martha Vest, Reynir Óskarsson, Guðmundur Jóelsson,Bjarni Andrésson, Brynjar Sigmundsson, Magnús Þórðarson, Jonhard Vest, Rakel Níelsdóttir og Axel Jónsson.

Hver var mesti höstlerinn í Reynisliðinu?
Pass

Hefurðu skorað sjálfsmark?
Já – við ræðum það ekki nánar.

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem gerst hefur í leik?
Ég man eftir atviki sem er skondið svona eftirá en var það ekki þegar það gerðist í leik við Njarðvík á Njarðvíkurvelli. Þetta var spennandi leikur og góð stemmning meðal áhorfenda. Þá gerist það að Reynismaður er rekinn af velli fyrir brot og eftir nokkur vel valin orð við dómarann þá labbar hann af stað útaf. Þá kallar einn áhorfandinn „þú lætur ekki reka þig útaf maður“ leikmaðurinn svarar strax „nei ég fer ekki fet“ snýr við og fer í sína stöðu. Upphófst nú mikil rekistefna og dómarinn hótaði að flauta leikinn af mig minnir að við höfum verið marki undir. Ég sem fyrirliði ræddi við leikmanninn og eftir miklar fortölur fór hann (Eskild) loks af velli en með mjög sært stolt.

Eitthvað sem þú vilt bæta við?
Þær eru mjög eftirminnilegar margar keppnisferðirnar til Færeyja og margir fjörugir leikirnir sem við spiluðum þar. Eitt sinn er við fórum út þá hittist það þannig á að Ólafsvakan var að hefjast í Þórshöfn. Ætlunin var að spila þar við Færeyjameistarana B-36 og vorum við örlítið stressaðir yfir því að fara að spila við svo sterkt lið. Skemmst er frá því að segja að við fórum á kostum í leiknum og völtuðum yfir þá 4-1 ef ég man rétt og voru þeir ekki borubrattir yfir því að tapa fyrir Reyni frá Sandgerði. Fréttin fór eins og eldur í sinu um allar eyjarnar að Reynismenn frá Sandgerði væru mættir þetta árið með rosalega sterkt lið og hefðu gert lítið úr Landsmeisturunum og gott ef þau þrjú lið sem við áttum að spila við á Suðurey voru ekki öll látin æfa alla Ólafsvökuna á meðan við tókum hressilega á því á Ólafsvökunni í Þórshöfn. Mættum svo á Suðurey á mánudeginum örþreyttir, svo í kjölfarið fengu menn allhressilegan niðurgang sem lagðist á nánast allt liðið næstu daga. Spiluðum þessa þrjá leiki og skítlágum í öllum leikjunum. Ógleymanleg ferð í alla staði.

Knattspyrnufélagið Reynir hefur í gegnum tíðina verið stolt okkar Sandgerðinga og ávallt verið mikill metnaður til að halda utan um og hlúa vel að íþróttamönnum bæði yngri og eldri með það markmið að ná sem bestum árangri á íþróttavellinum Það er von mín að framhald verði þar á í framtíðinni.

Óskar Gunnarsson

Þess má geta að Oldboys lið Reynis og VB spiluðu vígsluleik á gervigrasvellinum í Vági árið 1987. Frá vinstri: Guðjón Ólafsson, Stefán Bjarnason, Björn Maronsson, Rúnar Lúðvíksson, Ólafur Gunnlaugsson, Þorvaldur Finnsson, Jonhard Vest, Hafsteinn Guðnason, John EK Hill, Óskar Gunnarsson, Þórir Maronsson, Magnús Gíslason, Egill Ólafsson, Eyjólfur Gíslason og Hinrik (Eskild) Jóhannesson sem var dómari í þessum leik.

Ef þú mættir breyta einni reglu í fótbolta hverju myndir þú breyta?
Pass

Uppáhaldslið í enska boltanum?
Man.Utd.

Uppáhaldknattspyrnumaður allra tíma?
Pele

Besti knattspyrnumaður fyrr og síðar?
Messi

Við þökkum Óskari fyrir hressilega skýrslu sem skallar boltann glæsilega áfram á John Ek Hill (Denna).