Föstudaginn 26 ágúst síðastliðinn fór knattspyrnukeppnin milli Norður- og Suðurbæjar fram í níunda sinn. Alls voru 88 þátttakendur í fótboltanum og vítakeppninni.
Veðrið hefur sennilega aldrei verið betra og var mikill fjöldi áhorfenda á svæðinu til að berja augum knattspyrnugoðin sín.
Í vítakeppninni fóru leikar þannig að Þórhallur „Tóti“ Gíslason sigraði eftir hörku keppni við Tyrfing „Tinna“ Andrésson. Tóti og Tinni voru báðir öryggið uppmálað á punktinum, skoruðu úr öllum sínum vítum og því þurfti að grípa til bráðabana. Þar hafði Tóti betur þrátt fyrir að hafa neglt tuðrunni út á Stafnesveg í einu vítanna.
Venju samkvæmt var leikið í 3 aldurshópum. Í hópi trippanna (yngsta hópi) varð niðurstaðan jafntefli 4-4 eftir hörku viðureign, í hópi folanna (mið-hópi) lyktaði leiknum með 4-4 jafntefli eftir stórskemmtilega rimmu. Hjá gæðingunum (elsta hópnum) sigruðu Suðurbæingar 3-1. Suðurbær endurheimti því bikarinn og sigraði með 5 stigum gegn 2 stigum Norðurbæjar. Dómgæslan var í tryggum höndum þeirra Heiðars Þorsteinssonar og Rúnars Gissurarsonar. Beittu þeir hagnaðarreglunni óspart og leyfðu leikjunum að flæða áfram á því háa tempói sem leikmenn beggja liða krefjast. Hlynur Jóhannsson sá um neyðaraðstoðina að þessu sinni og sá til þess að þeir keppendur sem þurftu á honum að halda héldu áfram fílefldir eftir aðhlynningu.
Að venju fengu allir leikmenn liðamín og lýsi frá Lýsi hf að móti loknu. Einhverjir leikmanna fengu aukaskammt í æð strax eftir leik og þótti ekki veita af.
Um kvöldið fór fram saltfiskveisla í Reynisheimilinu og þar komu saman þáttakendur mótsins, makar og aðrir gestir, alls 120 manns.
Örn Garðarsson sá um matinn. Boðið var upp á þrenns konar útfærslu af saltfisk, í fyrsta lagi var um að ræða léttsaltaðan fyrir byrjendur, í öðru lagi betur staðinn fyrir lengra komna og að lokum var boðið upp á katalónskan saltfiskrétt. Meðlætið var sem fyrr kartöflur, rófur, hamsi, rúgbrauð, smjör og hvítlaukssmjörbræðingur.
Að loknu borðhaldi hófst óformleg dagskrá. Sigursveinn B. Jónsson stýrði veislunni og veitti hinar ýmsu viðurkenningar fyrir afrek leikmanna og liða fyrr um daginn. Þórhallur Gíslason tók við verðlaunum fyrir vítaspyrnukeppnina. Ómar Svavarsson hlaut heiðursverðlaun fyrir að færast upp um aldursflokk og fékk bókina „Aldnir hafa orðið“ að launum. Sigurður Skarphéðinsson upplifði loks æskudrauminn sinn þegar hann skoraði löglegt mark í opinberum fótboltaleik og hlaut að launum fallegan bikar. Ari Gylfason fékk „Grímuna“ fyrir bestu leikrænu tilburði á vellinum fyrr um daginn. Arnar Óskarsson var valinn lang-grófasti leikmaður mótsins. Ólafur Garðar Gunnlaugsson fékk sérstaka viðurkenningu fyrir að vera elsti keppandinn þetta árið. Pétur Brynjarsson og Jón Kr. Magnússon, aldursforsetar gæðinga Suðurbæjar, tóku svo við farandbikarnum glæsilega fyrir hönd Suðurbæinga og braust út mikill fögnuður í herbúðum Suðurbæinga.
Sigurður Pétursson í Ís-spor gaf öll verðlaunin í mótið og var einnig aðalstyrktaraðili. Glæsilegt hjá þessum mikla Reynismanni.
Kjartan Másson var heiðursgestur kvöldsins og hylltu gestir kappann fyrir hans framlag til Reynisfélagsins í gegnum árin.
Olgeir Andrésson gaf mótinu stækkaða ljósmynd á striga líkt og fyrri ár og var myndin boðin upp. Seldist hún á góðu verði enda glæsileg mynd af Stafnesvita í Norðurljósum. Þökkum við kaupanda myndarinnar, Óskari Sólmundarsyni, kærlega fyrir styrkinn en þess má geta að Óskar gaf félaginu myndina að kaupum loknum. Höfðinglega gert hjá Óskari.
Hápunktur kvöldsins var náð með frábæru tónlistaratriði Helga Björnssonar stórsöngvara sem tróð upp ásamt Stefáni Magnússyni gítarleikara. Helgi sló algjörlega í gegn og fékk dans- og söngaðstoð frá sjálfum Jónasi Karli Þórhallssyni og vakti tiltækið mikla kátínu viðstaddra.
Að veislu lokinni beið gesta stætó, í boði Hópferða Sævars, sem fór upp í Samkomuhúsið og var dansað þar fram á nótt með Helga Björns og Reiðmönnum Vindanna.
Kærar þakkir til allra þátttakenda og gesta, það er frábært að geta glaðst saman og látið gott af sér leiða um leið.
Undirbúningsnefnd þakkar eftirtöldum ómetanlegan stuðning:
Ís-spor – Lýsi – Jói Útherji – Tónaflóð – Soho Catering – Þorbjörn – Hópferðir Sævars – Nesfiskur – Olgeir Andrésson
Þá fá eftirtaldir aðilar sérstakar þakkir:
Starfsfólk Grunnskóla Sandgerðis – Starfsfólk Sandgerðisdaga
Undirbúningsnefnd 2016 þakkar fyrir sig:
Arnar Óskarsson
Jónas Karl Þórhallsson
Jón Bjarni Sigursveinsson
Sigursveinn Bjarni Jónsson
Björn Ingvar Björnsson
Kristján Helgi Jóhannsson