Stórskemmtileg keppni milli Norður- og Suðurbæjar

Norðurbær-Suðurbær hefst kl. 16:00 í dag á Sandgerðisvelli
27.08.2010
Norðurbær – Suðurbær 2011
31.07.2011
Sýna allt

Stórskemmtileg keppni milli Norður- og Suðurbæjar

Síðastliðinn föstudag fór fram hin stórskemmtilega keppni milli Norður- og Suðurbæjar í knattspyrnu á vegum Knattspyrnufélagsins Reynis. Alls voru 96 keppendur skráðir til leiks.
Veðrið lék við keppendur og þá fjölmörgu áhorfendur sem voru mættir til að styðja sinn bæjarhluta og eftir að Jón Norðfjörð var búinn að kynna liðin til leiks hófst knattspyrnuveislan. Leikið var í 3 aldursflokkum sem skiptust þannig: hvolpar (yngsti hópur), folar (miðaldurs hópur) og keisarar (elsti hópur).
Í hvolpaflokki sigraði Suðurbæjarliðið í hörkuleik 4-3 eftir að Norðurbæjarliðið hafði náð forystu 2-3. Í folaflokki sigraði Norðurbæjarliðið nokkuð örugglega 6-4 eftir að hafa náð 5-0 forystu. Þá var komið að lokaleiknum, milli keisaranna, og ljóst að sigurliðið úr þeirri viðureign myndi tryggja sínum bæjarhluta sigurinn í mótinu.
Eftir æsispennandi viðureign, þar sem markmennirnir þóttu fara á kostum, var ennþá jafnt að venjulegum leiktíma liðnum. Þá var gripið til vítaspyrnukeppni þar sem hvort lið fékk færi á að taka 3 spyrnur. Það er skemmst frá því að segja að Norðurbæjarliðið tryggði sér sigurinn þar með því að nýta allar sínar vítaspyrnur.
Að loknum knattspyrnuleikjunum fór fram vítaspyrnukeppni milli þeirra aðila sem höfðu sérstaklega skráð sig í þá keppni. Þar fór Guðjón nokkur Bragason hamförum og tryggði sér sigurinn með því að skora 4 mörk í öllum regnbogans litum framhjá gáttuðum markverðinum, Róberti Sighvatssyni.
Dómarar voru þeir Kristinn Jakobsson og Magnús Þórisson og stigu þeir vart feilspor í leikjunum, að eigin sögn.
Um kvöldið fór fram saltfiskveisla fyrir keppendur, þeirra maka og aðra gesti. Veislan fór fram í sal Reynisheimilisins sem skartaði sínu fegursta fyrir gestina sem voru 140 talsins. Guðmundur Metúsalem Stefánsson töfraði fram dýrindis veislumat af sinni alkunnu snilld og ekki skemmdi fyrir að Gummi hafði notið faglegrar ráðgjafar Magnúsar Þórissonar dómara og matreiðslumanns með meiru.
Að loknu borðhaldi tók við heimilisleg og afslöppuð dagskrá undir stjórn Sigursveins B. Jónssonar. Fyrstur steig á stokk Árni Johnsen sem sagði léttar sögur og lék og söng nokkur vel valin “brekkusöngslög” eins og honum einum er lagið. Myndaðist mikil stemmning þar sem fólk krækti saman öxlum og tók vel undir í söngnum.
Guðjón Bragason hlaut styttu til eignar fyrir sigurinn í vítakeppninni og aldursforseti Norðurbæjarliðsins, John Hill, tók við glæsilegum farandbikar fyrir sigurinn í liðakeppninni. Gefandi verðlaunagripanna er Reynismaðurinn Sigurður R. Pétursson en hann á fyrirtækið Ís-Spor í Reykjavík og sá hann sjálfur um að afhenda verðlaunin. Að lokinni verðlaunaafhendingunni flutti Sigurður tilfinningaríka ræðu og ljóst er að þar fer maður með stórt og mikið Reynishjarta.
Dregið var í happdrætti þar sem einn vinningur var í boði en hann var af dýrari gerðinni eða splunkuný fartölva frá Opnum Kerfum.
Olgeir Andrésson gaf félaginu ljósmynd af Hvalsneskirkju á striga ásamt áritaðri ljósmyndabók sinni um Norðurljósin. Gjöfin var boðin upp og fékkst metupphæð fyrir og kunnum við hæstbjóðanda bestu þakkir fyrir.
Þá tóku Magnús Þórisson og Óskar Gunnarsson til máls og litu yfir farinn í veg í boltanum.
Kvöldinu lauk svo með léttum tónum frá Hobbitunum.Undirbúningsnefnd vill þakka eftirtöldum fyrirtækjum fyrir ómetanlegan stuðning við mótið:
K&G fiskverkun ehfLýsiHensonStakkavík

Norðanfiskur

Rétturinn

Opin Kerfi

Skólamatur

Ice-Group

Bitinn

Deloitte

Ís-spor

Umboðsverslunin Vista

Flutningaþjónusta Tóta Kela

Nesfiskur

Hitaveita Suðurnesja

Þá fá eftirtaldir aðilar sérstakar þakkir:

Jón Norðfjörð

Kristinn Jakobsson

Magnús Þórisson

Árni Johnsen

Guðmundur M. Stefánsson

Starfsfólk Grunnskóla Sandgerðis

Starfsfólk Sandgerðisdaga

Smári og Selma hjá 245.is

og allir þeir sem með einhverjum hætti lögðu hönd á plóginn til að gera mótið í ár sem glæsilegast

Undirbúningsnefnd 2010 þakkar fyrir sig,Arnar ÓskarssonJónas ÞórhallssonJón Bjarni Sigursveinsson

Sigursveinn Bjarni Jónsson

Þórður Þorkelsson

Smellið hér til að skoða myndir frá mótinu.

Meðfylgjandi myndir: Smári/245.is