Norðurbær – Suðurbær 2011

Stórskemmtileg keppni milli Norður- og Suðurbæjar
05.09.2010
Allir skemmtu sér vel á Sandgerðisvelli. Norðurbær varði titilinn.
01.09.2011
Sýna allt

Norðurbær – Suðurbær 2011

Að venju fer hin frábæra keppni milli Norðurbæjar og Suðurbæjar í knattspyrnu fram á Sandgerðisdögum. Keppnin fer fram föstudaginn 26. Ágúst og því ekki seinna vænna fyrir Reynismenn nær og fjær að finna til viðeigandi skóbúnað.

Þátttakendum verður skipt í 3-4 aldurshópa, leikjafyrirkomulag fer eftir þátttöku og aldurssamsetningu þátttakenda og verður kynnt á síðari stigum. Elsti leikmaður hvers liðs er fyrirliði liðsins. Markmiðið er að allir fái að spila sem jafnast í hverju liði þannig að allir verði sáttir. Fyrir þá sem ekki treysta sér til að taka þátt í knattspyrnuleikjunum verður boðið upp á vítakeppni. ATH. Það skal sérstaklega tekið fram að þeir sem taka þátt í knattspyrnuleikjum geta ekki tekið þátt í vítakeppni og svo öfugt.

Keppt er um bikarinn glæsilega sem Siggi í Ísspor gaf mótinu í fyrra og samanlagður stigafjöldi úr viðureignum milli hverfanna ákvarðar sigurvegarann. Ef hverfin eru jöfn að stigum verður gripið til vítaspyrnukeppni í elstu liðunum til að skera úr um sigurvegara. Markamismunur gildir ekki þar sem dómarar hafa leyfi til að jafna leiki ef þeim sýnist svo.

Reynisheimilið opnar kl. 14:30 en ekki skal mæta seinna en kl. 15:00, mótið hefst kl. 16:00 og lýkur keppni um kl. 18:00. Kynningarfundur fyrir fyrirliða fer fram á efri hæð Reynisheimilis kl. 14:30.
Mótinu verður að sjálfsögðu slitið með saltfiskveislu sem fer fram í sal Reynisheimilisins. Húsið opnar kl. 20:00. Dagskrá kvöldsins mun að venju snúast um góðan mat, skemmtilegar sögur, viðurkenningar, söng og gleði.

Mótsgjald er aðeins 7.000 kr og innifalið í gjaldinu er réttur til þátttöku í knattspyrnumótinu, keppnistreyja, gjöf frá styrktaraðila og aðgangur að kvöldskemmtun. Makar eru að sjálfsögðu velkomnir í veisluna og kostar aðeins 3.000 kr fyrir makann. ATH. Síðast var uppselt í veisluna góðu, salurinn tekur 120 manns í sæti, fyrstir panta fyrstir fá.

Allur ágóði af mótinu rennur til Knattspyrnufélagsins Reynis. Takmarkið síðustu ár hefur verið að klára að útbúa salinn í félagsheimilinu okkar með þeim hætti að þar geti farið fram flottar veislur. Búið er að kaupa stóla og allan borðbúnað og nú vantar aðeins að klára dæmið og safna fyrir borðum. Takmarkið er að við verðum komin með fullbúin sal fyrir Sandgerðisdaga 2012.

Aldurstakmark er 30 ár, þ.e. viðkomandi þarf að verða þrítugur á árinu. Þeir leikmenn sem spilað hafa mótsleik í meistaraflokki á vegum KSÍ á árinu eru ekki gjaldgengir. Mótsstjórn hefur heimild til þess að taka inn yngri leikmenn til að fylla upp í lið ef þörf er á.
Þátttakendalisti mun uppfærast reglulega fram að móti.

Endilega takið daginn frá og tilkynnið þátttöku sem allra fyrst því tíminn líður ótrúlega hratt og það auðveldar allan undirbúning ef menn skrá sig snemma til leiks. Þáttökugjald skal greitt inn á reikning nr: 0147-05-004874 kt 680683-0269, vinsamlegast gangið frá greiðslu áður en mótið hefst og notið heimabankann til að senda kvittun á [email protected] til að tilkynna um greiðslu og munið að láta nafnið ykkar fylgja með í skýringu.

Við viljum biðja allt Reynisfólk nær og fjær að hjálpa okkur að smala sem flestum á mótið og leggja sitt af mörkum til að gera daginn ógleymanlegan, sendið tölvupóst eða hringið í gömlu liðsfélagana, stuðningsmennina, stjórnarmennina o.s.frv. Muna það einnig að þegar þið hvetjið menn til að mæta og taka þátt: Þá er getuleysið fyrirgefið en viljaleysið ekki.