“Það verður ekkert sparað og allt lagt í sölurnar” segja forráðamenn liða Norðurbæjar og Suðurbæjar en liðin mætast í stóruppgjöri á Sandgerðisvellinum nk föstudag.
Liðin hafa verið að styrkja sig í félagsskiptaglugganum og berast nú fréttir af því að allt stefni í að reynsluboltinn Hafsteinn Rúnar Helgason sé við það að hafa félagsskipti og er hann á leið í læknisskoðun í þessum skrifuðu orðum.
Reyndu bæði Norðurbær og Suðurbær að fá leikmanninn knáa til liðs við sig fyrir komandi átök og hafa liðin yfirboðið hvort annað í allt sumar.
Engar smáupphæðir nefndar í þeim efnum og eftir situr leikmannamarkaðurinn „algjörlega galinn“ eins og einn framkvæmdastjóri í ensku deildinni orðaði það á dögunum en boltinn rúllaði af stað og í framhaldinu þótti stórlið PSG heppið að ná Neymari fyrir ekki meiri upphæð en raun varð.
Þess má geta að hvorki Norðurbær né Suðurbær buðu í Neymar þar sem liðin hafa hvorugt not fyrir leikmanninn en bæði liði þykja hafa á mjög öflugum framherjum að skipa í dag.
Ljóst þykir að liðin ætla sér stóra hluti í komandi móti og kemur ekkert annað en sigur til greina.
Endanlegt kaupverð er ekki gefið upp og fór svo að liðin sættust á skiptan hlut og mun Hafsteinn því spila sitthvorn hálfleikinn með liðunum á föstudaginn.
Þar sem viðburðurinn á 10 ára afmæli um þessar mundir mun mótsnefnd ekkert aðhafast í málinu.
Búist er við því að Hafsteinn fái leikheimild áður en glugginn lokar á fimmtudag.