Síðastliðinn föstudag fór
knattspyrnukeppnin milli Norður- og Suðurbæjar fram í fjórða sinn. Alls voru 72
þátttakendur í fótboltanum og einnig voru 6 keppendur í sérstakri vítakeppni.
Veðrið lék við leikmenn og
áhorfendur og nýttu menn sér það óspart og sýndu lipra takta. Leikið var í 3
aldurshópum að þessu sinni. Í yngsta hópi sigruðu Norðurbæingar 5-3 eftir
hörkuleik, í miðaldra hópnum sigruðu Norðurbæingar 8-2 þar sem Jónas Gestur
Jónasson, markahæsti leikmaður í sögu Reynis, fór hamförum og setti mörk í
öllum regnbogans litum. Lokaleikurinn var hjá elsta hópnum, Keisurunum, og þar
tryggði Ómar Björnsson Suðurbæingum 1-0 sigur með einni af síðustu spyrnum
leiksins. Norðurbær varði því heiðurinn og sigraði með 6 stigum gegn 3 stigum
Suðurbæjar.
Í vítakeppninni fóru leikar þannig
að Gissur Þór Grétarsson fór með sigur af hólmi eftir bráðabana við Gunnlaug
Ólafsson. Höfðu menn á orði að fallbyssufótur Þórsa hefði vel getað nýst
Reynismönnum í leikjum sínum í 2. Deildinni í sumar. Dómgæslan var í öruggum
höndum alþjóðadómaranna Kristins Jakobssonar og Magnúsar Þórissonar og sem fyrr
stóðu þeir sig óaðfinnanlega, að eigin sögn.
Að móti loknu fengu allir leikmenn
liðamín og lýsi frá Lýsi hf og þá veitti heiðursmaðurinn Sigurður Pétursson frá
Vík dómurunum viðurkenningu fyrir sitt framlag til mótsins en Sigurður er
eigandi Ís-spor sem var aðalstyrktaraðili mótsins að þessu sinni.
Um kvöldið fór að venju fram
saltfiskveisla í Reynisheimilinu og þar komu saman þáttakendur mótsins, makar
og aðrir gestir, alls 125 manns. Gaman er að segja frá því að salurinn er nú
nánast fullbúinn tækjum og tólum þó alltaf megi bæta við. Fyrir afraksturinn af
síðustu mótum er búið að kaupa allan borðbúnað, stóla og borð. Undirbúningsnefnd
var á fullu alla vikuna að skrúfa saman stóla og borð og afraksturinn kom í
ljós í veislunni á föstudaginn og höfðu menn á orði að salurinn hefði verið
afar glæsilegur.
Saltfiskurinn sló í gegn hjá þeim
meistarakokkum Gumma Stefáns og Magga Þóris. Nú var boðið upp á þrenns konar
útfærslu af saltfisk, í fyrsta lagi var um að ræða léttsaltaðan fyrir
byrjendur, í öðru lagi vel staðinn og gulan fyrir lengra komna og að lokum var
boðið upp á spænskan saltfiskrétt a la Maggi Þóris. Meðlætið var sem fyrr kartöflur,
rófur, hamsi, rúgbrauð og smjör og að þessu sinni bætti Gummi við bræddu smjöri
með hvítlauk sem sló vægast sagt í gegn.
Að loknu borðhaldi hófst óformleg
dagskrá. Sigursveinn B. Jónsson stýrði veislunni og veitti hinar ýmsu
viðurkenningar fyrir skemmtileg afrek leikmanna fyrr um daginn. Þórsi Grétars
fékk bikar fyrir sigurinn í vítakeppninni en þess má geta að Þórsi var einnig í
hlutverki læknis á meðan á mótinu stóð og kom töfravökvinn sem hann veitti
slösuðum leikmönnum sér afar vel og allir fengu bót sinna meina. Ólafur Garðar
Gunnlaugsson fékk sérstaka viðurkenningu fyrir að vera elsti keppandinn þetta
árið. Siggi í Tungu, fyrirliði Keisaranna í Norðubæ, tók svo við farandbikarnum
glæsilega fyrir hönd Norðurbæinga. Sigurður Pétursson afhenti bikarinn sem hann
gaf mótinu í fyrra. Bæði hverfin voru í góðri stemmningu og sungu menn ole,ole
að spænskum sið í anda bacalao stemmningarinnar sem ríkti allt kvöldið.
Olgeir Andrésson gaf mótinu
stækkaða ljósmynd á striga líkt og í fyrra og var myndin boðin upp. Seldist hún
á góðu verði enda glæsileg mynd. Þökkum við kaupanda myndarinnar kærlega fyrir
styrkinn.
Opin Kerfi gáfu mótinu fartölvu.
Tölvan var eini vinningurinn í litlu happdrætti þar sem hver og einn gestur í
salnum mátti kaupa sér einn miða. Að sjálfsögðu keyptu allir miða og
vinningurinn féll í góðar hendur.
Tónlistaratriði á heimsmælikvarða
leit dagsins ljós þegar Óli Lækur og Siggi í Báru tróðu upp af sinni alkunnu
snilld. Allur salurinn tók undir í söngnum og gleðin var allsráðandi. Ef undirbúningsnefndin
fengi einhverju ráðið þá yrðu þeir félagar æviráðnir til starfans.
Þá tóku þeir Haraldur Helgason og
Magnús Þórisson lagið með sínum einstaka hætti og uppskáru mikið klapp að
launum. Þá bað Ólafur Þór Ólafsson um orðið og skoraði á salinn að taka með sér
Reynislagið, enginn skoraðist undan og fólk tók vel undir í þessu frábæra lagi.
Það var samdóma álit allra í
salnum að um frábæra kvöldstund hafi verið að ræða. Góður og jákvæður andi
ríkir ávallt á þessum kvöldum og leitun er að öðrum eins félagsanda og ríkir í
Knattspyrnufélaginu Reyni í Sandgerði.
Undirbúningsnefnd vill þakka
eftirtöldum fyrirtækjum fyrir ómetanlegan stuðning við mótið:
Ís-spor
Lýsi
Henson
Stakkavík
Íslenskt Sjávarfang
Rétturinn
Opin Kerfi
Tónaflóð
Þá fá eftirtaldir aðilar sérstakar
þakkir:
Kristinn Jakobsson
Magnús Þórisson
Guðmundur M. Stefánsson
Olgeir Andrésson
Starfsfólk Grunnskóla Sandgerðis
Starfsfólk Sandgerðisdaga
Undirbúningsnefnd 2011 þakkar
fyrir sig:
Arnar Óskarsson
Jónas Þórhallsson
Jón Bjarni Sigursveinsson
Sigursveinn Bjarni Jónsson
Þórður Þorkelsson