Að venju fer fram keppni milli
Norðurbæjar og Suðurbæjar í knattspyrnu á Sandgerðisdögum.
Reynismenn eru
hvattir til að finna skóna uppi í hillu og byrja að pússa hið snarasta því
herlegheitin bresta á fyrr en margan grunar, nánar tiltekið föstudaginn 27. ágúst.
Spilað verður í tveimur aldursskiptum deildum, yngri deild er fyrir 30 ára og
eldri og betri deild er fyrir leikmenn í kringum 50 ára og eldri.
Mæting er kl.
15:00 í Reynisheimili, mótið hefst kl. 16:00 og lýkur keppni um kl. 18:00.
Keppnisfyrirkomulag verður með örlítið breyttu sniði en áður en það verður
nánar auglýst á allra næstu dögum.
Mótinu
verður slitið með flottri veislu sem fer fram í sal Reynisheimilisins. Húsið
opnar kl. 20:00. Nánari dagskrá verður auglýst mjög fljótlega en í grunninn er
um að ræða góðan mat, skemmtilegar sögur, viðurkenningar og lifandi tónlist. Að
sjálfsögðu sér Guðmundur Metúsalem Stefánsson um matseldina af sinni alkunnu snilld.
Mótsgjald er aðeins 6.500 kr og innifalið í gjaldinu er réttur til þátttöku í
knattspyrnumótinu, treyja með númeri og Reynismerki, gjöf frá styrktaraðila og
aðgangur að kvöldskemmtun. Makar eru að sjálfsögðu velkomnir í veisluna og
kostar aðeins 2.500 kr fyrir makann. Liðum verður skipt upp í hverfislitina
gulan, grænan, bláan og rauðan líkt og á síðasta ári.
Allur ágóði af mótinu
rennur til Knattspyrnufélagsins Reynis og að þessu sinni mun ágóðinn renna
óskiptur til kaupa á borðum, stólum og borðbúnaði fyrir salinn í
Reynisheimilinu. Nú er tímabært að salurinn verði gerður glæsilegur til
framtíðar í tilefni af því að félagið er 75 ára gamalt á þessu ári. Allir þeir
sem skrá sig eru hvattir til að afla styrktarlínu frá fyrirtæki að upphæð á
bilinu 5.000-10.000 krónur. Nafn viðkomandi fyrirtækis birtist á einblöðungi
sem borinn verður í öll hús í Sandgerði rétt fyrir mótið þar sem mótið verður
auglýst og fólk hvatt til að mæta og styðja sín lið í keppninni. Það skal
sérstaklega tekið fram að þetta er ekki skylda, aðeins vinsamleg tilmæli til
þátttakenda. Margt smátt gerir eitt stórt.
Aldurstakmark er 30 ár, þ.e.
viðkomandi þarf að verða þrítugur á árinu. Þeir leikmenn sem spilað hafa mótsleik
í meistaraflokki á vegum KSÍ á árinu eru ekki gjaldgengir.
Dagskráin mun mótast
frekar fram að Sandgerðisdögum og einnig mun þátttakendalisti uppfærast
reglulega fram að móti.
Endilega takið daginn frá og tilkynnið þátttöku sem
allra fyrst því tíminn líður ótrúlega hratt og það auðveldar allan undirbúning
ef menn skrá sig snemma til leiks. Við viljum biðja allt Reynisfólk nær og fjær
að hjálpa okkur að smala sem flestum á mótið og leggja sitt af mörkum til að
gera daginn ógleymanlegan, sendið tölvupóst eða hringið í gömlu liðsfélagana,
stuðningsmennina, stjórnarmennina o.s.frv. Muna það einnig að þegar þið hvetjið
menn til að mæta og taka þátt: Þá er getuleysið fyrirgefið en viljaleysið ekki.
Skráning í mótið
Nauðsynlegar upplýsingar við skráningu:
Nafn:
Fæðingarár:
Hverfi:
Heimilisfang:
Símanúmer:
Netfang:
Númer á baki treyju:
Stærð á treyju:
Maki
kemur í veislu: Já/Nei
Skráning er hafin á [email protected] , [email protected], [email protected] og [email protected] , nánari
upplýsingar veitir Sissi í síma 863-1795, Jón Bjarni í síma 896-1795, Arnar
Óskars í síma 821-4036 og Tóti Kela í síma 899-6350.
Síðasti skráningardagur
er föstudagurinn 21. Ágúst, eftir þann dag þarf nafnalistinn að vera
fullmótaður vegna merkinga á treyjum.
Undirbúningsnefnd er skipuð
Sigursveini Bjarna, Jóni Bjarna, Arnari Óskars, Þórði Þorkels og Jónasi
Þórhalls.