Dagskráin í heild sinni

Rútuferðir í boði Ferðaþjónustu Reykjaness
09.08.2019
Logo Merki
Matseðill kvöldsins
14.08.2019
Sýna allt

Dagskráin í heild sinni

Logo Merki

Fótboltaveislan Norðurbær-Suðurbær fer fram í tólfta sinn föstudaginn 30. ágúst á Europcar-vellinum í Sandgerði.

 

Kl 15  Mæting í Reynisheimilinu þar sem keppnistreyjur verða afhentar að venju.
Endurfundir, kaffi og létt upphitun.

Kl 15:50 Gengið inn á völlinn fylktu liði við undirspil Meistaradeildar lagsins og Jóa Útherja í flutningi Ómars Ragnarssonar, einstök upplifun.

Myndataka liða.

Kl 16  Flautað til leiks þar sem þeir keppendur sem skráðu sig til leiks í vítaspyrnum hefja keppni. Þar næst fer fram leikur gæðinga, þar á eftir fara fram tveir leikir trippa og fola á sama tíma.

Dómarar verða Fifa-dómararinn Þorvaldur Árnason og Pétur Guðmundsson báðir dómarar í Pepsi Max-deildinni.

Allir keppendur fá mánaðarskammt af Lýsi og liðamíni.

Kl 18 Móti lokið og keppendur ættu að hafa góðan tíma til að sturta sig og skipta yfir í betri fötin fyrir saltfiskveisluna góðu.

Kl 19:15.  Húsið opnar

Kl 19:45.  Hátíðin sett.

Veislustjóri verður uppistandarinn, skemmtikrafturinn, pistalhöfundurinn og Njarðvíkingurinn Örvar Þór Kristjánsson sem án efa lætur allt flakka.

Matseldin að þessu sinni verður í öruggum höndum Magnúsar Þórissonar og hans fólks á Réttinum. Það verður framreiddur hefðbundinn saltfiskur með kartöflum, rófum ásamt hvítlauks-smjörbræðingnum fræga, hömsum og þrumara. Þá verður í boði ómótstæðilegur saltfiskréttur að spænskum sið. Einnig ætlum við að brydda upp á þeirri nýjung að bjóða upp á plokkfisk í sparifötum og reykta og grafna bleikju með sósum og tilheyrandi meðlæti. Sannkallað sælkerahlaðborð.

Verðlaunaafhendingar, gamanmál að hætti hússins þar sem söngur og gleði ráða ríkjum.
Veglegur happdrættisvinningur sem dreginn verður úr aðgöngumiðum veislugesta.

Stemningin mun svo ná hámarki þegar þeir Sverrir Bergmann stórsöngvari og Halldór Gunnar kórstjóri Fjallabræðra stíga á stokk. Það má einnig geta þess að þeir félagar eru forsprakkar í hljómsveitinni Albatross.

Eftir viðburðinn verða rútuferðir í boði Margrétar Örnu Eggertsdóttur eiganda Ferðaþjónustu Reykjaness upp í samkomuhús þar sem hljómsveitin Albatross mun halda uppi fjörinu fram á rauða nótt.

Veislugestir fá miðann á dansleikinn á kr 2500 á hurð gegn framvísun aðgöngumiðans á saltfiskveisluna.

Albatross er ein vinsælasta ballhljómsveit landsins í dag en hljómsveitin mætir funheit beint af þjóðhátíð með þá Sverri Bergmann og Halldór Gunnar fremsta í flokki. Það verða klárlega spiluð öll heitustu danslögin og eflaust veður þjóðhátíðarstemmari í húsinu.
Eitthvað sem enginn má missa af.

Sjá nánar um mótið á www.nordursudurbaer.is

Skráðu þig til leik með því að smella hér