Suðurbær sigraði örugglega

Fresturinn framlengdur til miðnættis í kvöld og 70 þáttakendur skráðir til leiks
21.08.2014
Myndir úr mótinu komnar inn í myndasafnið
27.10.2014
Sýna allt

Suðurbær sigraði örugglega

Föstudaginn 29 ágúst síðastliðinn fór knattspyrnukeppnin fjöruga milli Norður- og Suðurbæjar fram í sjöunda sinn. Alls voru 84 þátttakendur í fótboltanum og vítakeppninni.

Venju samkvæmt var leikið í 3 aldurshópum. Í hópi trippanna (yngsta hópi) sigraði Suðurbær örugglega 8-2, í hópi folanna (mið-hópi) sigruðu Suðurbæingar 7-3. Lokaleikurinn var hjá Gæðingunum (elsta hópnum) og þar sigruðu Norðurbæingar 1-0. Suðurbær varði því titilinn og sigraði með 6 stigum gegn 3 stigum Norðurbæjar. Heiðar Þorsteinsson nágranni okkar úr Garði skilaði dómgæsluhlutverkinu með miklum sóma og hafði hann lærlinginn Andrés Eggertsson sér til halds og trausts. Þá vakti kynnir mótsins, Andri Þór Ólafsson, ekki síður athygli fyrir röggsama og kjarnyrta kynningu þegar leikmenn gengu inn á völlinn.

Í vítakeppninni fóru leikar þannig að Ævar Már Finnsson fór með sigur af hólmi þriðja árið í röð. Ævar klikkaði ekki á einu einasta víti í keppninni Sigurlið Suðurbæj 2014 og hefur ekki klikkað á víti í 3 ár.

Að móti loknu fengu allir leikmenn liðamín og lýsi frá Lýsi hf.

Um kvöldið fór fram saltfiskveisla í Reynisheimilinu og þar komu saman þáttakendur mótsins, makar og aðrir gestir, alls 140 manns.

Heiðursgestur kvöldsins var Sævar Halldórsson frá Vági í Færeyjum. Mikill Íslands- og Reynisvinur sem ósjaldan hefur rétt félaginu hjálparhönd.

Örn Garðarsson töfraði fram saltfiskinn af sinni alkunnu snilld. Boðið var upp á þrenns konar útfærslu af saltfisk, í fyrsta lagi var um að ræða léttsaltaðan fyrir byrjendur, í öðru lagi betur staðinn fyrir lengra komna og að lokum var boðið upp á katalónskan saltfiskrétt. Meðlætið var sem fyrr kartöflur, rófur, hamsi, rúgbrauð, smjör og hvítlaukssmjörbræðingur.

Að loknu borðhaldi hófst óformleg dagskrá. Sigursveinn B. Jónsson stýrði veislunni og veitti hinar ýmsu viðurkenningar fyrir afrek leikmanna og liða fyrr um daginn.

Sparkvissasti leikmaður Sandgerðis og þó víðar væri leitað, Ævar Már Finnson, tók við verðlaunum fyrir vítaspyrnukeppnina. Magnús Hvanndal átti skiptingu mótsins þegar hann geystist inn á völlinn fyrir Eðvarð Ólafsson sem hafði aðeinsætlað að fá Magnús til að geyma gleraugun sín. Eðvarð Ólafsson sjálfur átti svo varnartilþrif dagsins þegar hann renndi sér fótskriðu og varði þrumuskot andstæðings sem var við það að negla boltanum í netið. Kristján Helgi Jóhannsson átti hausverk mótsins en honum tókst að hringja í eiginkonu sína í hálfleik og biðja hana um verkjatöflur. Auðunn Pálsson fékk þá sérstaka viðurkenningu fyrir mögnuð tilþrif á vellinum. John E. K. Hill (Denni) fékk sérstaka viðurkenningu fyrir að vera elsti keppandinn þetta árið. Óskar Gunnarsson og Eyjólfur Ólafsson, fyrirliðar Gæðinganna í Suðurbæ, tóku svo við farandbikarnum glæsilega fyrir hönd Suðurbæinga. Sigurður Pétursson í Ís-spor gaf öll verðlaunin í mótið, frábær stuðningur hjá þessum mikla Reynismanni.

Óskar og Eyjólfur hófu bikarinn á loft við mikinn fögnuð SuðurbæingaOlgeir Andrésson gaf mótinu stækkaða ljósmynd á striga líkt og fyrri ár og var myndin boðin upp. Seldist hún á góðu verði enda glæsileg mynd. Þökkum við kaupanda myndarinnar kærlega fyrir styrkinn. Margir glæsilegir happdrættisvinningar skiptust þá bróðurlega á gesti kvöldsins.

Einnig var vígður glæsilegur bikarskápur sem prýðir anddyri félagsheimilis okkar en hann er að mestu leyti fjármagnaður með innkomu af mótinu en einnig lagði aðalstjórn Reynis til fé í verkið. Skápurinn er ákaflega vel heppnaður og ljóst að mörg félög munu líta öfundaraugum á þessa listasmíð.

Hápunktur kvöldsins var án nokkurs vafa frábært tónlistaratriði Ingólfs Þórarinssonar, betur þekktur sem Ingó Veðurguð. Hann fór gjörsamlega á kostum og allur salurinn tók undir í lögunum svo þakið ætlaði af húsinu!!

Hinn mikli öðlingur Sævar Baldursson frá Hópferðum Sævars sá svo um að ferja gesti veislunnar yfir í Samkomuhúsið þar sem Ingó og Veðurguðirnir héldu uppi stuðinu fram eftirnóttu.

Almenn ánægja og sátt ríkir um framkvæmd þessa móts og saltfiskveislunnar. Það er alltaf gaman að taka þátt í viðburði þar sem jákvæðni og gleði eru einkunnarorð allra þátttakenda.

Kærar þakkir til allra sem tóku þátt í mót og veislu, það er frábært að geta glaðst saman og látið gott af sér leiða um leið.

Undirbúningsnefnd vill þakka eftirtöldum fyrirtækjum fyrir ómetanlegan stuðning við mótið:

Ís-spor

Lýsi

Jói Útherji

Stakkavík

Goodthaab í Nöf

Hópferðir Sævars

Opin Kerfi

Advania

Fiskifjelagið

Tapasbarinn

3 frakkar hjá Úlfari

BYKO

Golfklúbbur Sandgerðis

Golfklúbbur Suðurnesja

Sporthúsið

Þá fá eftirtaldir aðilar sérstakar þakkir:

Heiðar Þorsteinsson dómari

Andrés Eggertsson dómaranemi

Andri Þór Ólafsson kynnir

Olgeir Andrésson listamaður

Starfsfólk Grunnskóla Sandgerðis

Starfsfólk Sandgerðisdaga

Örn Garðarsson matreiðslumaður

Egill Ólafsson ljósmyndari

Knattspyrnudeild UMFG

Undirbúningsnefnd 2014 þakkar fyrir sig:

Arnar Óskarsson

Jónas Þórhallsson

Jón Bjarni Sigursveinsson

Sigursveinn Bjarni Jónsson

Kristján Helgi Jóhannsson

Björn Ingvar Björnsson