Suðurbær sigraði örugglega

Lokaútkall! Skráning fyrir Norðurbær vs Suðurbær
15.08.2018
Myndirnar úr gleðinni
25.09.2018
Sýna allt

Suðurbær sigraði örugglega

Föstudaginn 24 ágúst síðastliðinn fór knattspyrnukeppnin milli Norður- og Suðurbæjar fram í ellefta sinn. 77 lífsreyndir og umfram allt lífsglaðir kappar létu þá ljós sitt skína svo áhorfendum stafaði hætta af ofbirtunni sem fylgdi.

Hjörtur Jóhannsson var krýndur Vítakóngur ársins. Hjörtur var öryggið uppmálað á punktinum og þandi netmöskvana ítrekað eins og fengsælum skipstjóra sæmir.

Venju samkvæmt var leikið í 3 aldurshópum. Í hópi trippanna (yngsta hópi) sigraði Suðurbær örugglega. Í hópi folanna (mið-hópi) sigruðu Suðurbæingar einnig með nokkrum yfirburðum. Hjá gæðingunum (elsta hópnum) sigruðu Norðurbæingar. Suðurbær sigraði því samanlagt.

Dómgæslan var í tryggum höndum alþjóðadómaranna Gunnars Jarls Jónssonar og Þorvaldar Árnasonar. Þeir hefðu getað skilið spjöldin eftir heima því liðsmenn Norðurbæjar og Suðurbæjar eru annáluð prúðmenni upp til hópa og leitun að öðrum eins ljúflingum.

Að venju fengu allir leikmenn liðamín og lýsi frá Lýsi hf að móti loknu. Þá þótti það fréttnæmt með eindæmum að veðrið hefur aldrei verið betra á mótsdag, sól og blíða gladdi leikmenn og hina fjölmörgu aðdáendur á svæðinu.

Um kvöldið fór fram saltfiskveisla í Reynisheimilinu og þar komu saman þáttakendur mótsins, makar og aðrir gestir, alls 135 manns.

Örn Garðarsson sá um matinn. Boðið var upp á þrenns konar útfærslu af saltfisk, í fyrsta lagi var um að ræða léttsaltaðan fyrir byrjendur, í öðru lagi vel staðinn fyrir lengra komna og að lokum var boðið upp á katalónskan saltfiskrétt. Meðlætið var sem fyrr kartöflur, rófur, hamsi, njólaskrugga, rúgbrauð, smjör og hvítlaukssmjörbræðingur.

Að loknu borðhaldi hófst óformleg dagskrá.
Bjössi Greifi stýrði veislunni með ágætum því mun færri sofnuðu undir borðhaldi heldur en oft áður.

Leynigesturinn, Pétur Jóhann Sigfússon, mætti með miklum látum og sló rækilega í gegn með kolsvörtu glensi.

Guðjón Ólafsson var heiðursgestur kvöldsins.  Hann byrjaði að spila fyrir Reyni í 5 flokki og spilaði upp alla yngri flokka hjá félaginu. Hann byrjaði ungur að þjálfa, 14-15 ára, og þjálfaði yngri flokka Reynis flest ár nema þegar hann stundaði sjómennsku. Hann lék fyrsta meistaraflokks leikinn 15 ára á móti Þrótti Vogum. Guðjón var lengi vel fyrirliði félagsins og lyfti fyrir þess hönd á loft fyrsta Íslandsmótstitli félagsins árið1976 þegar liðið fór upp í aðra deild. Síðasta leikinn spilaði hann 37 ára með Reyni á móti FH. Meistaraflokks þjálfaraferillinn hófst árið 1980 og fyrsta félagið sem hann þjálfaði var Snæfell Stykkishólmi. Síðan lá leiðin austur á firði og þar þjálfaði hann fyrst Leikni Fáskrúðsfirði og svo Val Reyðarfirði. Árið 1988 lá leiðin suður í Grindavík þar sem hann var aðstoðarþjálfari Kjartans Mássonar. Árið eftir var hann aðalþjálfari Grindavíkur. Hann endaði svo þjálfaraferilinn í heimahögum sem þjálfari hjá Reyni Sandgerði og spilaði með Old Boys fram yfir fimmtugt og er í dag dyggur stuðningsmaður félagsins.

Nefndin veitti hinar ýmsu viðurkenningar fyrir afrek leikmanna og liða fyrr um daginn. Hjörtur Jóhannsson tók við verðlaunum fyrir vítaspyrnukeppnina. Magnús Hvanndal fékk verðlaun fyrir fallegasta mark mótsins. Marteinn Guðjónsson fékk sérstaka viðurkenningu fyrir flesta hringi í einni byltu. Engilbert Adolfssonfyrir bestu tæklinguna án þess að fótbrjóta andstæðinginn. Óskar Sólmundarson fékk verðlaun fyrir að vera efnilegasti leikmaður í elsta flokk og þá fékk Eðvarð Ólafsson sérstaka viðurkenningu fyrir að vera elsti keppandinn þetta árið.
það voru svo eiginkonur elstu leikmanna Suðurbæjar sem tóku við farandbikarnum glæsilega fyrir hönd Suðurbæinga og braust út gríðarlegur fögnuður í þeirra herbúðum.

Sigurður Pétursson í Ís-spor gaf enn einu sinni öll verðlaunin í mótið. Þessi mikli Reynismaður á miklar þakkir skildar fyrir stuðninginn við mótið frá upphafi.

Olgeir Andrésson gaf mótinu stækkaða ljósmynd á striga líkt og fyrri ár og var myndin boðin upp. Seldist hún á góðu verði enda glæsileg mynd af Hvalsneskirkju umvafin Norðurljósum.

Bæjarstjórinn, Magnús Stefánsson, söngvari og bassaleikari Upplyftingar tók að sjálfsögðu Traustur Vinur og allur salurinn tók undir.

Að veislu lokinni var gestum boðin rútuferð í Samkomuhúsið, í boði Ferðaþjónustu Reykjaness, og dönsuðu þar fram á nótt með Stuðlabandinu.

Kærar þakkir til allra þátttakenda og gesta, það er frábært að geta glaðst saman og látið gott af sér leiða um leið.

Undirbúningsnefnd þakkar eftirtöldum fyrirtækjum ómetanlegan stuðning:

Ís-spor – Lýsi – Jói Útherji – Tónaflóð – Soho Catering – Þorbjörn – Nesfiskur – Olgeir Andrésson – Þorlákur Morthens – Ferðaþjónusta Reykjaness

Þá fá eftirtaldir aðilar sérstakar þakkir:

Starfsfólk Grunnskóla Sandgerðis

Undirbúningsnefnd 2018 þakkar fyrir sig:

Arnar Óskarsson

Jónas Karl Þórhallsson

Jón Bjarni Sigursveinsson

Sigursveinn Bjarni Jónsson

Björn Ingvar Björnsson

Kristján Helgi Jóhannsson