Föstudaginn 25. ágúst síðastliðinn fór fram, í fjórtánda sinn, knattspyrnukeppnin milli Norður- og Suðurbæjar.
Að þessu sinni voru í fyrsta skipti stelpur með í keppninni og settu þær mikinn svip á mótið.
Það voru 88 keppendur sem skráðu sig til leiks og þar af 22 stelpur.
Veðrið spilaði fínan leik, þurrt var í veðri, sólarlaust og hæglætisvindur
Staðan í sigrum fyrir þetta mót var 7-6 fyrir Suðurbæ.
Vel var mætt á völlinn og áhorfendur sem og keppendur skemmtu sér vel.
Fyrirliðar og jafnframt elstu þáttakendurnir að þessu sinni voru þeir Jón Norðfjörð fyrir Suðurbæ og Eðvarð Ólafsson fyrir Norðurbæ og leiddu þeir liðin inn á iðagrænan völlinn með bikarinn sín á milli undir spili Meistaradeildarlagsins og Jóa Útherja.
Það voru 14 kappar sem tóku þátt í vítakeppninni að þessu sinni og var fyrirkomulagið þannig að spyrnt var á tvö mörk í þremur umferðum.
Jón Gunnarsson var öryggið uppmálað á vítapunktinum og stóð uppi sem sigurvegari.
Það var skipt í tvo aldursflokka hjá körlum og spilaðir tveir leikir í flokki Gæðinga og Fola.
Þá var leikinn einn leikur í kvennaflokki og voru skiptar skoðanir hvort þær ættu að flokkast sem Merar eða Hryssur sem skipti í raun engu máli enda meira til gamans gert.
Fyrirkomulagið var þannig að fyrst fór fram leikur Gæðinga sem endaði á nokkuð öruggum sigri Suðurbæjar og það sem vakti kannski hvað mesta athygli var að Sigurður Skarphéðinsson gerði sér lítið fyrir og setti þrennu í leiknum.
Því næst voru spilaðir samtímis leikur Fola í karlaflokki og leikur kvenna í blönduðum Merar og Hryssu flokki.
Leikur Folanna var jafn og spennandi og endaði með sigri Suðurbæjar 2-1 þar sem mörg glæsitilþrifin litu dagsins ljós.
Kvennaleikurinn stóð upp úr að mati viðstaddra. Hann var hraður og skemmtilegur þar sem liðin sóttu endanna á milli og skoruðu mörg glæsileg mörkin í hnífjöfnum leik.
Fór svo að stelpurnar úr Norðurbæ sigruðu stöllur sínar úr Suðri 5-4
Dómararnir Þorvaldur Árnason alþjóðadómari og Hreinn Magnússon, sem hljóp í skarð Arnar Þórs Stefánssonar, og stóðu þeir sig með miklum sóma í leikjum þar sem prúðmennskan var í hávegum höfð.
Venju samkvæmt fengu allir leikmenn Liðamín og Lýsi í boði Lýsi hf að móti loknu. Einnig fengu allir keppendur próteindrykkinn Hleðsla sem var í boði MS
Um kvöldið fór fram saltfiskveisla í Reynisheimilinu og þar komu saman þáttakendur mótsins, makar og aðrir gestir, vel rúmlega 120 manns.
Veislustjórn kvöldsins var í góðum höndum Kristjáns Jóhannssonar
Rétt áður en borðhald hófst þá tróð hin einni sanni Pétur Jóhannsson upp.
Eftir mikinn hlátur veislugesta var komið að Magnúsi Þórissyni og hans fólki á Réttinum sem sá um matseldina.
Það var framreiddur hefðbundinn saltfiskur með kartöflum, rófum ásamt hvítlauks-smjörbræðingnum fræga, hömsum og þrumara. Einnig var í boði spánskur Bacalaó, saltfiskréttur. Plokkfiskur í og án sparifata (bernaise). Innbökuð og grafin bleikja með sósum og tilheyrandi meðlæti. Sannkallað sælkerahlaðborð.
Magnús Kjartan Eyjólfsson brekkusöngvari og forsprakki Stuðlabandsins keyrði upp stemmarann í lokin við góðar undirtektir.
Nefndin veitti hin ýmsu verðlaun fyrir tilþrif í mótinu:
Jón Gunnarsson tók við verðlaunum sem Vítakóngur mótsins
Gísli Pálsson var valinn “Nagli” mótsins en hann lenti í samstuði og fékk blóðnasir en kláraði leikinn “alblóðugur” með glæsibrag.
Hrefna Guðmundsdóttir fékk verðlaun fyrir “Misskilning” mótsins en þau fékk hún fyrir að taka upp boltann og taka innkast þegar knötturinn var ansi langt frá því að vera farinn út fyrir hliðarlínuna.
Einar Júlíusson fékk verðlaun fyrir bestu tilþrifin
Kolbrún Rakel Helgadóttir var valin besti leikmaður mótsins en hún varði markið með glæsibrag og átti margar glæsivörslur.
Jón Norðfjörð fékk viðurkenningu sem elsti þáttakandi mótsins.
Leikmenn Suðurbæjar karla og kvenna lyftu svo bikarnum á loft sem sigurvegarar mótsins við mikinn fögnuð viðstaddra.
Sigurður Pétursson í Ís-spor gaf enn einu sinni öll verðlaunin í mótið. Þessi mikli Reynismaður á miklar þakkir skildar fyrir stuðninginn við mótið frá upphafi.
Að veislu lokinni var rútuferð í Samkomuhúsið, í boði Ferðaþjónustu Reykjaness, þar sem dansað var fram á nótt undir spili Stuðlabandsins.
Kærar þakkir til allra þátttakenda og gesta. Það er meiriháttar gaman að geta glaðst saman og látið gott af sér leiða.
Undirbúningsnefnd þakkar eftirtöldum fyrirtækjum ómetanlegan stuðning:
Ís-spor – Lýsi – Mjólkursamsalan – Tónaflóð – Rétturinn – Nýfiskur – Nesfiskur – Samherji – Þorlákur Morthens – Fraktferðir – Vörudreifing – Ferðaþjónusta Reykjaness
Einnig þökkum við öllum þeim fyrirtækjum sem lögðu til vinninga í happdrætti kvöldsins.
Undirbúningsnefnd 2023 þakkar fyrir sig:
Arnar Óskarsson
Jónas Karl Þórhallsson
Jón Bjarni Sigursveinsson
Sigursveinn Bjarni Jónsson
Björn Ingvar Björnsson
Kristján Helgi Jóhannsson