Föstudaginn 30 ágúst síðastliðinn fór hin margrómaða knattspyrnukeppni milli Norður- og Suðurbæjar fram í sjötta sinn. Alls voru 85 kempur skráðar til leiks, ýmist í fótbolta eða vítakeppni.
Þegar fögur fylking leikmanna beggja liða stillti sér upp við miðlínu ásamt dómurum ákváðu veðurguðirnir að minna á sig með rækilegu hagléli af hressilegustu gerð. Menn létu þetta lítt á sig fá og þá sérstaklega Suðurbæingar sem léku við hvurn sinn fingur í fyrstu leikjum dagsins. Leikið var í 3 aldurshópum að venju. Í yngsta hópi sigruðu Suðurbæingar 9-4, í miðaldra hópnum sigruðu Suðurbæingar 8-2. Lokaleikurinn var hjá elsta hópnum, Keisurunum, og þar tryggði Jónas Karl Þórhallsson Norðurbæingum 1-0 sigur með nýju afbrigði af sendingarskoti sem hefur blekkt margan markmanninn. Suðurbæingar lönduðu því bikarnum, sigruðu með 6 stigum gegn 3 stigum Norðurbæjar.
Í vítakeppninni fóru leikar þannig að Ævar Már Finnsson fór með sigur af hólmi annað árið í röð. Höfðu menn á orði að þjálfarar Ævars í gegnum tíðina hafi greinilega farið á mis við þá staðreynd að leitun er að öruggari vítaskyttu og má til sanns vegar færa að einhver stig hafi farið í súginn í gegnum tíðina af þessum sökum. Dómgæslan var í öruggum höndum goðsagnanna Atla Eðvaldssonar og Kjartans Mássonar.
Að móti loknu fengu allir leikmenn liðamín og lýsi frá Lýsi hf og orkustangir frá Nature Valley og þá var dómurum veitt viðurkenning fyrir sitt framlag til mótsins. Reynismaðurinn Sigurður Pétursson frá Vík, eigandi Ís-spor, gaf viðurkenningar dómaranna sem og alla aðra verðlaunagripi mótsins líkt og hann hefur gert frá fyrsta móti.
Um kvöldið fór að venju fram saltfiskveisla í Reynisheimilinu og þar komu saman þáttakendur mótsins, makar og aðrir gestir, alls 138 manns.
Heiðursgestur kvöldsins var Sveinn Pálsson. Sveinn er eini eftirlifandi maðurinn sem sat stofnfund Knattspyrnufélagsins Reynis og að auki teiknaði Sveinn Reynismerkið okkar ástkæra.
Saltfiskurinn var frábær en Örn Garðarsson kokkur sá um veisluna að þessu sinni. Líkt og á síðasta ári var boðið upp á þrenns konar útfærslu af saltfisk, í fyrsta lagi var um að ræða léttsaltaðan fyrir byrjendur, í öðru lagi vel staðinn og gulan fyrir lengra komna og að lokum var boðið upp á ljúffengan spænskan saltfiskrétt. Meðlætið var sem fyrr kartöflur, rófur, hamsi, rúgbrauð og smjör.
Að loknu borðhaldi hófst óformleg dagskrá. Sigursveinn B. Jónsson stýrði veislunni og veitti hinar ýmsu viðurkenningar fyrir skemmtileg afrek leikmanna fyrr um daginn. Ævar Finns fékk bikar fyrir sigurinn í vítakeppninni. Marteinn Guðjónsson fékk viðurkenningu fyrir bestu tilþrif en hann skoraði mark á heimsmælikvarða og hafði Atli Eðvalds það á orði að hann hefði hætt ári of snemma í meistaraflokki. Bergmann Skúlason fékk sérstök verðlaun fyrir háttvísi en hann tók ofan húfuna sína áður en hann skaut að marki andstæðinganna og þá fékk Ómar Björnsson viðurkenninguna valtari ársins en undir valtaranum lenti Jón Örvar Arason og er víst ennþá að jafna sig. Stefán Þór Guðmundsson fékk sérstaka viðurkenningu fyrir að vera elsti keppandinn þetta árið. Þórður Ólafsson, elsti spilandi leikmaður Suðurbæinga, tók svo við farandbikarnum glæsilega fyrir hönd Suðurbæinga við mikinn fögnuð þeirra.
Olgeir Andrésson gaf mótinu stækkaða ljósmynd á striga líkt og í fyrra og var myndin boðin upp. Seldist hún á góðu verði enda glæsileg mynd. Þökkum við kaupanda myndarinnar kærlega fyrir styrkinn.
Fjölmörg fyrirtæki gáfu mótinu happdrættisvinninga. Undirtektir í happdrættinu voru framar vonum og margir gestir fengu góða vinninga.
Allt ætlaði um koll að keyra þegar Helgi Björnsson stórsöngvari tróð upp ásamt Stefáni Magnússyni gítarleikara. Helgi fór á algjörum kostum, stóð að venju uppi á stólum og borðum og allur salurinn tók undir í lögunum svo heyrðist til nærliggjandi bæja.
Frábær dagur í alla staði og fólk er beðið um að taka strax frá föstudaginn 29 ágúst 2014 þegar næsta mót fer fram.
Undirbúningsnefnd vill þakka eftirtöldum fyrirtækjum fyrir ómetanlegan stuðning við mótið:
Ís-spor
Lýsi
Jói Útherji
Stakkavík
Godthaab í Nöf
Fiskverkun Hólmgríms
Tónaflóð
Golfklúbbur Sandgerðis
Hótel Keflavík
Golfklúbbur Suðurnesja
Advania
Rub23
Fiskifjelagið
Saffran
Hársnyrtistofan Flóki
Opin Kerfi
Þrír Frakkar
Laugaás
Tapasbarinn
Sandgerðisbær
Knattspyrnudeild Reynis
Samkaup
Knattspyrnudeild
Keflavíkur
Adidas
Þá fá eftirtaldir aðilar sérstakar þakkir:
Atli Eðvaldsson
Kjartan Másson
Örn Garðarsson
Olgeir Andrésson
Egill Ólafsson
Jón Sigurðsson
Knattspyrnudeild UMFG
Starfsfólk Grunnskóla
Sandgerðis
Starfsfólk Sandgerðisdaga
Undirbúningsnefnd 2013 þakkar fyrir sig:
Arnar Óskarsson
Jón Bjarni
Sigursveinsson
Sigursveinn Bjarni
Jónsson
Kristján Helgi
Jóhannsson
Björn Ingvar Björnsson
Jónas Þórhallsson