Mótsnefnd barst óvænt kæra eftir mótið og rétt fyrir veislu.
Nefndin var kölluð saman um kvöldið rétt fyrir krýningu á sigurvegurum mótsins.
Nefndin tók sér drjúgan tíma til þess að fara yfir vel yfir kæruna og rökin sem fylgdu með í þremur liðum.
Það var mikil spenna í loftinu og ætlaði hreinlega allt um koll að keyra í salnum allt þar til úrskurður nefndarinnar lá fyrir.
Kærunni var vísað frá með vísan í 6. gr. í reglum mótsins þar sem segir; “Mótsstjórn hefur alvald um keppnisfyrirkomulag og hefur búið til þær reglur sem stuðst er við. Fyrirkomulag á keppni hverju sinni getur þó miðast af þátttöku hverju sinni og hefur stjórnin fullt vald til breytinga með engum fyrirvara ef þurfa þykir”
7. gr var jafnframt breytt á eftirfarandi hátt: „Verði hverfin jöfn að stigum verður gripið til vítaspyrnukeppni“. Fellt var út málsgreinin: „í elstu liðunum til að skera úr um sigurvegara“ á þeim rökum að framkvæmt mótsins hefur breyst á þann hátt að nú keppir elsta liðið fyrsta leik í stað síðasta sem áður var.
Úrslitin skyldu því standa og Norðurbær var krýndur sigurvegari 2017.
Brutust út mikil fagnaðarlæti hjá Norðbæingum í framhaldinu sem voru vel að sigrinum komnir.
Þessi uppákoma var óvænt og að sjálfsögðu til gamans gerð.
Meðfylgjandi er efni kærunnar sem var lesin upp í veislunni:
Dags 25/8/17 klukkan 18:50
Berist mótsnefnd N&S
Hér með kærir Suðurbær vegna úrslita mótsins í dag og leikmanns sem liðin hafa keppst við að kaupa í allt sumar og yfirboðið yfir allt sem skynsamlegt getur talist.
Leikmaðurinn sem um ræðir er Hafsteinn Helgason en samkomulag náðist á milli liðanna rétt fyrir mót að hann myndi spila sitthvorn hálfleikinn með liðunum.
1. Það er ljóst eftir mótið að leikmaðurinn spilaði fyrir Norðurbæinn allan leikinn og við það verður ekki unað af hálfu Suðurbæjar.
2. Þar að auki tók viðkomandi leikmaður einnig víti í vítakeppninni fyrir Norðurbæ og við það verður heldur ekki unað af Suðurbæ.
3. Þá er það skýrt í reglunum að elsti hópurinn þe Gæðingar áttu að taka taka spyrnurnar í vítakeppninni.
Í sjöundu grein stendur:
Keppt er um hinn glæsilega Hverfabikar sem Siggi í Ísspor gaf mótinu árið 2010.
Fyrirliði elsta sigurliðsins ásamt elsta þáttakenda þess liðs munu veita honum viðtöku fyrir hönd síns hverfis og er gripurinn afhentur í Saltfiskveislunni sem fram fer síðar um kvöldið.
Samanlagður stigafjöldi úr viðureignum milli hverfanna ákvarðar sigurvegarann.
Verði hverfin jöfn að stigum verður gripið til vítaspyrnukeppni í elstu liðunum til að skera úr um sigurvegara.
Markatala gildir ekki þar sem dómarar hafa rúmar heimildir til að gera leiki jafnari ef þeim sýnist svo. (t.d. ef annað liðið er að vinna með 6 marka mun og leikurinn rétt hálfnaður).
Þetta er einróma ákvörðun mótsstjórnar og henni verður ekki hnikað.
Hér með kærir Suðurbær úrslit mótsins og vill láta reyna á 7. greinina og skorar á mótsnefnd að taka á málinu strax þar sem montréttur, heiður og æra er í húfi fyrir bæði lið í þessu móti.
Virðingarfyllst
Forráðamenn Suðurbæjar