Skráning í baráttuna um Sandgerði er hafinn!

Myndir úr síðasta fótboltamóti komnar inn á síðuna
30.10.2013
Síðasti dagur skráningar og uppfærður þáttakendalisti
20.08.2014
Sýna allt

Skráning í baráttuna um Sandgerði er hafinn!

Óðfluga nálgast hin árlega fótboltaveisla Norðurbæjar-Suðurbæjar í Sandgerði en mótið verður haldið föstudaginn 29. ágúst á Reynisvellinum og að sjálfsögðu verður hin víðfræga saltfiskveisla á sínum stað með öllu tilheyrandi.

Norðurbær mun án efa gefa allt í sölurnar þetta árið þar sem þeir lutu heldur betur í gras fyrir léttleikandi liði Suðurbæjar sem ætla eflaust ekki að gefa gripinn frá sér baráttulaust og hafa þeir því verið í æfingabúðum við Úlfljótsvatn um mánaðarskeið þar sem áhersla hvar lögð á æðisgengnar bikarlyftingar með tilheyrandi fagnaðarlátum. Útsendarar Norðurbæjar sáust hinsvegar í stúkunni á leikvanginum í Michigan í Bandaríkjunum á dögunum þar sem áhorfendamet var sett í leik á milli tveggja stórvelda í knattspyrnu. Heyrst hefur að allavega tveir útsendarar hafi setið leynilegan fund með Louis nokkrum Van Gaal á ónefndum stað í skógarrjóðri strax eftir leik þar sem farið var yfir leikkerfi og hvaða markskot væru líklegust til þess að rata í netmöskva andstæðinganna. Að þessu skrifuðu má ljóst vera að það verður ekkert gefið eftir í baráttu hverfanna um Sandgerði. Fer fram eins og áður sagði þann 29. ágúst. LÁTTU SJÁ ÞIG!

Saltfiskveislan góða verður svo að vanda í Reynisheimilinu um kvöldið. Veislustjóri að þessu sinni verður enginn annar en Gísli Einarsson (Út og Suður) sem kitla mun hláturtaugar gesta svo um munar.

Ingó Veðurguð mun svo mæta í Reynisheimilið nánast beint úr Eyjum þar sem hann hitaði upp fyrir saltfiskveisluna góðu með brekkusöng fyrir tæplega 20.000 manns. Teygt verður hæfilega mikið á söngböndum veislugesta þannig að allir verði ríflega ánægðir.

Nálægðin við listamennina sem koma fram á kvöldunum okkar eiga sér enga hliðstæðu.

Við vonumst að sjálfsögðu til að sjá ykkur sem flest í gleðinni.

Allar nánari upplýsingar um dagskrá ásamt skráningarformi er að finna efst á árinu 2014.