Nú styttist óðum í hápunkt
Sandgerðisdaga 2009, keppnina á milli Norðurbæjar og Suðurbæjar í knattspyrnu. Skráning gengur vonum framar og stefnan er að gera betur en síðast en þá tóku 52
vaskir Reynismenn þátt.
Að lokinni keppni þetta árið verður haldin
saltfiskveisla upp á gamla mátann í Reynisheimilinu fyrir þáttakendur og maka
þeirra. Í boði verður saltaður þorskur að hætti suðurnesjamanna, kartöflur,
rófur, rúgbrauð og smér. Ekkert verður til sparað og aðeins verður notað besta
hráefni sem völ er á. Ekki er nóg með að hráefnið verði af hæsta gæðaflokki því
matreiðslan verður í höndum bragðlaukameistarans frá Tjarnarkoti, Guðmundar
Metúsalems Stefánssonar.
Óhætt er að segja að knattspyrnudeild Reynis hafi
dottið í lukkupottinn þegar starfskraftar Guðmundar voru tryggðir. Gummi hefur
verið til sjós frá því hann útskrifaðist úr barnaskóla og stærstan hluta
starfsferilsins hefur sú ábyrgð hvílt á herðum Gumma að matreiða ofan í
vinnufélagana. Má með sanni segja að matreiðsla á sjávarfangi leiki í höndunum
á honum og hann hefur ávallt nálgast viðfangsefni sitt af mikilli virðingu.
Hróður
Gumma hefur borist víða um lönd og skemmst er að minnast þátttöku hans fyrir
hönd Íslands í Bocuse d’Or matreiðslukeppninni árið 2004 þar sem sæbjúguréttur
hans sigraði í keppni um besta sjávarréttinn það árið.
Það vill svo skemmtilega
til að útvötnun og matreiðsla á saltfiski er sérgrein Guðmundar. Meðlætið er þó
sá hluti af fullkominni saltfiskmáltíð sem Gummi hefur ástríðu fyrir, þ.e.
kartöflurnar og rófurnar. Gummi er þó lítt hrifinn af því að ljóstra upp þeim
leyndarmálum í eldamennskunni sem hann hefur þróað í gegnum árin og segir að
fólk verði einfaldlega að mæta í veisluna ætli það sér að komast í kynni við þá
“himnesku upplifun” sem eldamennska hans veitir fólki.
Veislan hefst
kl. 20:00 föstudagskvöldið 28. ágúst, eftirvænting og tilhlökkun þátttakenda
eykst með degi hverjum.