Nú styttist í hápunkt knattspyrnusumarsins á Íslandi, Norðurbær-Suðurbær mótið er handan við hornið.
Það verður haldið föstudaginn 24 ágúst á Reynisvellinum og að sjálfsögðu verður hin víðfræga saltfiskveisla á sínum stað.
Enn eitt árið höfum við náð einstaklega góðum samningi um kaup á flottum treyjum og að þessu sinni verður breytt aðeins til. Treyjurnar verða stutterma og menn eru því hvattir til að klæða sig eftir veðri þann 24 ágúst næstkomandi (en auðvitað verður sól og blíða)….
Mótsgjald 2012 er 7.000 kr og skal greitt inn á reikning nr: 0147-05-004874 kt 680683-0269. Muna skal að setja nafn og kennitölu í skýringu við greiðslu. Maki greiðir 3.000 kr fyrir saltfiskveislu. Allur ágóði af mótinu rennur til Knattspyrnudeildar Reynis.
Innifalið í mótsgjaldi er eftirtalið:
-Keppnistreyja, glæsileg stuttermatreyja sem mun nýtast við flest tækifæri
-Ómæld gleðin við að hlaupa inn á Reynisvöllinn í fullum herklæðum og takkaskóm (ómetanlegt)
-Lýsi og liðamín mánaðarskammtur (sumum veitir ekki af ársbirgðum )
-Miði í saltfiskveisluna víðfrægu þar sem á boðstólum verður saltfiskur og meðlæti eins og hver getur í sig látið, verðlaunaafhendingar og gamanmál að hætti hússins, söngur og gleði ræður ríkjum og rúsínan í pylsuendanum: Helgi Björns mætir á svæðið og tekur nokkra þekkta slagara og kemur gestum í stuðgírinn.
Fyrsta mótið var haldið árið 2008 og þetta verður því 5 árið í röð sem mótið er haldið. Á þessum tíma höfum við náð að safna fyrir eftirtöldu:
-Borðbúnaður/leirtau merkt Reynismerkinu fyrir félagsheimilið okkar. Glæsilegt sett sem hefur m.a. verið notað í saltfiskveisluna undanfarin 2 ár og verður að sjálfsögðu notað áfram.
-Borð og stólar fyrir félagsheimilið okkar. Notað í fyrsta skipti í saltfiskveislunni okkar í fyrra.
-Hljóðkerfi fyrir félagsheimilið okkar. Notað í fyrsta skipti á heimaleik Reynis á móti Gróttu í sumar. Verður notað á heimaleikjum og við skemmtanir í sal félagsheimilis.
-Æfinga- og keppnisboltar fyrir yngri flokka ksd. Reynis fyrir sumarið 2012.
Næsta skref er að klára eldhúsið í félagsheimilinu, skipta um gólfefni og koma fyrir skápum og skúffum fyrir allan borðbúnaðinn okkar.
Menn skrá sig með því að senda póst á
[email protected] og láta eftirfarandi upplýsingar fylgja:
Nafn:
Fæðingardagur og ár:
Norður- eða Suðurbær:
Gsm númer:
Maki kemur í veislu:
Og hér skal aðeins merkt við annan valkostinn (menn geta ekki tekið þátt í báðum keppnum):
Fótbolti:
Vítakeppni:
Skráning er hafin og endilega gerið okkur þann greiða að láta þá aðila vita sem þið teljið að hafi áhuga á að taka þátt í mótinu. Vinsamlegast athugið að skráningarfrestur er til 16 ágúst næstkomandi, eftir þann tíma þurfum við að panta treyjurnar.
Nefndin.