Föstudaginn 25 ágúst síðastliðinn fór knattspyrnukeppnin milli Norður- og Suðurbæjar fram í tíunda sinn. 91 stykki eldsprækir listamenn í knattfimi öttu þá kappi í fótboltanum og vítakeppninni.
Þegar liðin gengu til keppni var tekinn hringur í kringum félagsheimilið og stoppað við það að framanverðu. Þar var afhjúpaður glæsilegur skjöldur með merki og stofndegi félagsins. Sannarlega glæsileg gjöf frá liðsmönnum Norðurbæjar og Suðurbæjar.
Í vítakeppninni fóru leikar þannig að Auðunn Pálsson kom sá og sigraði nokkuð örugglega.
Venju samkvæmt var leikið í 3 aldurshópum. Í hópi trippanna (yngsta hópi) varð jafntefli niðurstaðan 4-4. Í hópi folanna (mið-hópi) sigruðu Suðurbæingar 2-1 . Hjá gæðingunum (elsta hópnum) sigruðu Norðurbæingar 2-1. Í fyrsta skipti í sögu keppninnar varð því að fara í vítakeppni til þess að knýja fram úrslit og þar reyndust Norðurbæingar vera heppnari og endurheimti því Norðurbær bikarinn í ár. Dómgæslan var í tryggum höndum alþjóðadómaranna Gunnars Jarls Jónssonar og Þorvaldar Árnasonar. Notuðu þeir nýja VAR myndbandsdómgæslukerfið óspart til að skera úr um hin fjölmörgu vafaatriði sem komu upp á meðan á leikjunum stóð. Þar var brotið blað í knattspyrnusögu heimsins.
Að venju fengu allir leikmenn liðamín og lýsi frá Lýsi hf að móti loknu. Þá var í fyrsta skipti dælt glaðlofti í nokkra loftlausa leikmenn sem svifu um á bleiku skýi það sem eftir lifði leikja.
Um kvöldið fór fram saltfiskveisla í Reynisheimilinu og þar komu saman þáttakendur mótsins, makar og aðrir gestir, alls 130 manns.
Örn Garðarsson sá um matinn. Boðið var upp á þrenns konar útfærslu af saltfisk, í fyrsta lagi var um að ræða léttsaltaðan fyrir byrjendur, í öðru lagi betur staðinn fyrir lengra komna og að lokum var boðið upp á katalónskan saltfiskrétt. Meðlætið var sem fyrr kartöflur, rófur, hamsi, rúgbrauð, smjör og hvítlaukssmjörbræðingur.
Að loknu borðhaldi hófst óformleg dagskrá.
Bjarni töframaður stýrði veislunni með miklum myndarbrag, svo miklum reyndar að hlúa þurfti að nokkrum gestum sem tognuðu í kjálka vegna hlátraskalla.
Jónas Karl Þórhallsson nefndarmaður fékk orðið og fór yfir tilurð mótsins og upphafið en hann var aðalhvatamaður þess að mótið var sett á laggirnar fyrir 10 árum.
Nefndin veitti hinar ýmsu viðurkenningar fyrir afrek leikmanna og liða fyrr um daginn. Auðunn Pálsson tók við verðlaunum fyrir vítaspyrnukeppnina. Jónas Gestur Jónasson fékk verðlaun fyrir leikræna tilburði. Atli Óskarsson fyrir bestu byltuna. Helgi Karlsson fyrir flottasta markið og Ólafur Garðar Gunnlaugsson fékk sérstaka viðurkenningu fyrir að vera elsti keppandinn þetta árið og skilst okkur að hann sé búinn að smíða extra langa hillu í stofuna heima hjá sér til að koma öllum verðlaunagripunum fyrir.
Áður en endanlegir sigurvegarar voru krýndir þá var tekin fyrir kæra sem nefndinni barst bæði vegna framkvæmdar vítakeppninnar og eins vegna leikmanns sem bæði lið gerðu tilkall til í mótinu þe að hann spilaði sitthvorn hálfleikinn með hvoru liði en reyndin var sú að hann spilaði eingöngu með liði Norðurs. Mótsnefnd var kölluð saman á neyðarfund og var úrskurður hennar á þá leið að úrslit dagsins skyldu standa. Allt á léttu nótunum að sjálfsögðu en það var svo Eðvarð Ólafsson, aldursforseti gæðinga Norðurbæjar sem tók við farandbikarnum glæsilega fyrir hönd Norðurbæinga og braust út mikill fögnuður í þeirra herbúðum.
í tilefni þess að Norðurbær/Suðurbær mótið var 10 ára þá var útbúið merki viðburðarins og var það afhjúpað um kvöldið með pompi og prakt. Merkið vakti góða lukku og mun ma prýða búningana um komandi ár.
Sigurður Pétursson í Ís-spor gaf enn einu sinni öll verðlaunin í mótið. Það er leitun að meiri Reynismanni en Sigga P.
Olgeir Andrésson gaf mótinu stækkaða ljósmynd á striga líkt og fyrri ár og var myndin boðin upp. Seldist hún á góðu verði enda glæsileg mynd af Stafnesvita umvafinn Norðurljósum. Þökkum við kaupanda myndarinnar, Hafsteini Má Steinarssyni, kærlega fyrir styrkinn.
Kvöldinu lauk með frábæru tónlistaratriði Eyþórs Inga Gunnlaugssonar sem fékk alla gesti til að taka vel undir í söng og jafnvel dansi.
Að veislu lokinni var gestum boðin rútuferð í Samkomuhúsið, í boði Ferðaþjónustu Reykjaness, og dönsuðu þar fram á nótt með Stuðlabandinu..
Kærar þakkir til allra þátttakenda og gesta, það er frábært að geta glaðst saman og látið gott af sér leiða um leið.
Undirbúningsnefnd þakkar eftirtöldum fyrirtækjum ómetanlegan stuðning:
Ís-spor – Lýsi – Jói Útherji – Tónaflóð – Soho Catering – Þorbjörn – Nesfiskur – Stakkavík – Olgeir Andrésson – Ferðaþjónusta Reykjaness
Þá fá eftirtaldir aðilar sérstakar þakkir:
Starfsfólk Grunnskóla Sandgerðis
Undirbúningsnefnd 2017 þakkar fyrir sig:
Arnar Óskarsson
Jónas Karl Þórhallsson
Jón Bjarni Sigursveinsson
Sigursveinn Bjarni Jónsson
Björn Ingvar Björnsson
Kristján Helgi Jóhannsson