Það styttist óðum í hið árlega fótboltamót Norður og Suðurbæjar en mótið fer fram föstudaginn 30. ágúst
Spáð er fáranlega góðu veðri þessa helgi og búist við áhorfendameti á Brons vellinum í Sandgerði og tilhlökkunin er mikil í herbúðum beggja liða
Síðasta mót bauð upp á einhvern allra jafnasta og skemmtilegasta leik sem farið hefur fram í mótinu til þessa þegar kvennalið hverfanna mættust.
Norðurbær kvenna (hryssur) sigraði naumlega í miklum markaleik 5-4 en það dugði ekki til þess að sigra mótið samanlagt því lið karla í fola og gæðingaflokki töpuðu sínum leikjum. Heyrst hefur að kvennalið Norður stefni á að vera með námskeið eða æfingabúðir fyrir karlaliðin síðustu vikuna fyrir mót þar sem sérstaklega verður farið yfir það hvernig eigi að skora fleiri mörk en andstæðingurinn.
Suðurbæjarstelpur eiga harma að hefna og ætla sér ekkert annað en sigur í ár. Heyrðist strax eftir tapleikinn í fyrra að það yrði æft stíft fram að næsta móti og var á dagskránni að spila nokkra æfingaleiki. Ekki höfum við fregnir af því hvernig þeir leikir hafa farið eða hversu stíft hefur verið æft.
Karlalið Suðurbæjar eiga fullt í fangi með að halda leikmönnum því tilboðum hefur rignt úr Norðri í nokkra af bestu leikmönnum liðsins. Verður fróðlegt að sjá hvað gerist áður en félagsskiptaglugginn lokar.
Einnig hefur heyrst að Jón Gunnarsson vítakóngur síðasta árs ætli sér ekkert annað en sigur og hefur sett stefnuna á að slá Ævari Finnssyni við en hann varð vítakóngur þrjú ár í röð fyrir nokkrum misserum. Jóni er full alvara og hefur sett sett upp mark í fullri stærð í garðinum heima hjá sér og æfir vítin af grimmd um þessar mundir. Gárungar segja hann mjög sparkvissan og negla boltanum í netið í hverri spyrnu en honum hefur hinsvegar ekkert orðið ágengt að fá markmann til að standa á milli stanganna á meðan hann spyrnir. Útlit er þó fyrir að lausn sé í sjónmáli því Jón var á dögunum að auglýsa á Brask og Brall eftir markmannshönskum á eiginkonuna
Nefndin hvetur alla til að skrá sig til leiks og taka þátt í gleðinni
Ætlunin er að vera með sama fyrirkomulag og í fyrra, aldurstakmark ca 25 ára og ekki að hafa keppt mótsleik 2024
Við minnum á að hverfin verða aftur í sömu búningum þ.e.a.s. Norðurbær í hvítum og Suðurbær í rauðum. Viljum við leggja sérstaka áherslu á og hvetja alla þá sem hafa tekið þátt allavega síðustu tvö ár að mæta með gamla búninginn og spara sér 2.000 kallinn. Þeir búningar eru ekki með ártali á.
Heimasíða viðburðarins ofl uppl um mótið er að finna hér nordursudurbaer.is