Norðurbær – Suðurbær 2012 – Reglur

 

Reglur mótsins. 

 

1. 

Norðurbær – Suðurbær er
fyrir knattspyrnumenn frá Sandgerði 30 ára og eldri. Verði menn þrítugir á
árinu teljast þeir gjaldgengir. Þeir leikmenn sem spilað hafa mótsleik í
meistaraflokki á vegum KSÍ á árinu eru ekki gjaldgengir.

 

2.

“Knattspyrnumaður” frá Sandgerði er sá sem með einhverjum hætti hefur
tengst knattspyrnu í Sandgerði. Innan þess ramma eru m.a. stuðningsmenn,
leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn. Það eitt að hafa hugsað til Reynis Sandgerði
á jákvæðan hátt er einnig næg ástæða
fyrir mætingu. 

 

3. 

Þátttakendur
skulu skrá sig hjá undirbúningsnefnd og verða gjaldgengir eftir að hafa innt af
hendi mótsgjald. 

Allur ágóði af mótinu rennur til grasrótarstarfs
Knattspyrnudeildar Reynis. 

 

4.

Mótið er
tvískipt þar sem annarvegar verður keppt í 7 manna bolta þvert á völlinn og
hinsvegar einstaklings og/eða liðakeppni í vítaspyrnukeppni. 

Þeir
sem skrá sig til keppni í vítaspyrnum mega ekki taka þátt í fótboltanum og
sömuleiðis gilda sömu reglur um þá sem skrá sig til keppni í fótboltanum þ.e.
mega ekki taka þátt í vítakeppninni.

 

5. 

HÁTTVÍSI,
PRÚÐMENNSKA OG SAMBABOLTI er
yfirskrift mótsins. Leikmenn skulu leitast við að forðast allt það háttalag sem
getur stefnt líkamlegri og andlegri heilsu andstæðinga og samherja í hættu,
leikmenn skulu umsvifalaust viðurkenna fyrir dómara hafi þeir gerst brotlegir
við knattspyrnulög og leikmenn skulu draga fram alla þá kunnáttu í knattleikni
sem þeir hafa viðað að sér á ferlinum til þess að skemmta áhorfendum hið mesta. 

Þeir sem koma með því hugarfari að tækla allt sem hreyfist verða útilokaðir frá
keppni næstu 10 ár en hafa mætingarskyldu og verða skráðir í sjósund á
meðan bannið er í gildi. 

Í
stuttu máli er sem sagt bannað að tækla og brúka munn. 

 

6. 

Mótsstjórn hefur alvald um keppnisfyrirkomulag og hefur búið til þær
reglur sem stuðst er við. Fyrirkomulag á keppni hverju sinni getur þó miðast af
þátttöku hverju sinni og hefur stjórnin fullt vald til breytinga með engum
fyrirvara ef þurfa þykir. 

Fullt tillit er tekið til allra athugasemda eftir
hvert mót fyrir sig og gerðar breytingar ef þurfa þykir. Mótsstjórn skal hafa
til hliðsjónar hvar menn voru/eru búsettir í Sandgerði, þ.e. skipta liðum upp
þannig að sem flestir norðurbæjarmenn verði saman og að sem flestir
suðurbæjarmenn verði saman. Mótsstjórn ákveður einnig í hvorum litnum liðin
spila í en fyrirfram skal gengið út frá því að liðin skiptist á litum ár hvert. Litir skulu
ávalt miðast við liti á aðal og varabúningum meistaraflokks Reynis hverju
sinni.

 

7. 

Keppt er um hinn glæsilega Hverfabikar sem Siggi
í Ísspor gaf mótinu árið 2010. 

Fyrirliði elsta liðsins mun veita honum viðtöku
fyrir hönd síns hverfis og er gripurinn afhentur í Saltfiskveislunni sem fram
fer síðar um kvöldið. 

Samanlagður stigafjöldi úr viðureignum milli hverfanna
ákvarðar sigurvegarann. Verði hverfin jöfn að stigum verður gripið til
vítaspyrnukeppni í elstu liðunum til að skera úr um sigurvegara. Markatala
gildir ekki þar sem dómarar hafa rúmar heimildir til að gera leiki jafnari
ef þeim sýnist svo. (t.d.
ef annað liðið er að vinna með 6 marka mun og leikurinn rétt hálfnaður). 

Þetta
er einróma ákvörðun mótsstjórnar og henni verður ekki hnikað. 

 

8

Leikið er á minnivöllum (þvert á hálfan leikvanginn). Spilaður er sjö
manna bolti með einum markverði og sex útileikmönnum. Hvert lið skal skipað að
minnsta kosti 8 leikmönnum, s.s. einn markvörður og sex útileikmenn. Leiktíminn er 2 x 20 mínútur. 

Fyrirkomulagið
verður þannig að spilað er í þremur aldursskiptum hópum, yngstir, miðaldra og
elstir. Fjöldi þátttakenda í öllum aldurshópum skal vera sem jafnastur. Fyrst
spila yngri hóparnir á sitthvorum vellinum og síðan spilar elsti hópurinn
lokaleikinn. Markmiðið er að allir fái að spila sem jafnast
í hverju liði þannig að allir verði sáttir. Hvert lið skal hafa liðstjóra og
vatnsbera,það eru tilvalin hlutverk fyrir þá sem ekki treysta
sér lengra en að hliðarlínu en er skylt að vera í keppnistreyju. 

Elsti
leikmaður hvers liðs er fyrirliði liðsins. 

Mótsstjórn hefur heimild til þess að
taka inn yngri leikmenn til að fylla upp í lið ef þörf er á. 

Leikjafyrirkomulagið
getur farið eftir þátttöku og aldurssamsetningu. 

Vítakeppnin fer svo fram eftir
leik elsta hópsins.

 

9. 

Í vítaspyrnukeppni
er um útsláttarform að ræða og fer eftir þáttökufjölda hvort um einstaklings og/eða
hverfakeppni verður að ræða nema bæði fari fram. 

Dómari ákveður hver byrjar og
skulu þáttakendur skiptast á að spyrna þar til einn stendur eftir sem
sigurvegari og verður hann krýndur Vítakóngur. 

Verði góð þáttaka verður einnig
keppt í hverfakeppni og verða sigurverðlaun einnig veitt. Fari hverfakeppni fram
þá getur sami leikmaður getur ekki spyrnt aftur fyrr en allir samherjar hans
hafa spyrnt. Sé jafnt eftir að allir leikmenn hafa spyrnt, skal
vítaspyrnukeppninni fram haldið með einni spyrnu á hvort hverfi, þar til úrslit
fást. 

 

10. 

Þeir leikmenn í
eldri deild sem telja sig vera í of góðu líkamlegu formi eða hreinlega í
ofþjálfun er heimilt að skrá sig til keppni í yngri deildinni en fá ekki
forgjöf. 

Leikmönnum í yngri deild er ekki heimilt að skrá sig í keppni í eldri
deild. 

 

11. 

Dómarar hafa rúmar heimildir og
geta spjaldað leikmenn að vild fyrir grófar tæklingar, ljótt orðbragð, eða
slæma framkomu og getur viðkomandi fengið þá 2 mínútna brottvísun. Viðkomandi
er sem sagt rekinn út af í 2 mínútur til að kæla sig niður, en annar liðsfélagi
má koma strax inná og síðan getur viðkomandi komið aftur inn á eftir það. 

Við
minnum á að dómarar geta einnig jafnað í liðum með fækkun eða fjölgun leikmanna
sé einsýnt að annað liðið sé að valta yfir hitt. 

 

12. 

„Læknir“ verður staðnum og verður
hann einkennisklæddur í hvítan slopp með rauðum kross. Um leið og einhver
meiðist, fer í fýlu eða örmagnast, þá mætir læknirinn með „orkudrykk“. Honum er
heimilt að fara inná völlinn og „lækna“ leikmenn hvenær leiks sem er, án
afskipta dómara, og verður hann skipaður af mótsnefnd hverju sinni. 

 

13. 

Sérstaklega skal tekið fram að sömu reglur gilda um sendingar til
markvarðar og gilda í deildarkeppnum ávegum KSÍ. 

 

14. 

Leikið verður á aðalleikvangi
Reynisfélagsins. 

 

15. 

Ekki er
heimilt að spila á grasskóm í keppninni. 

 

16. 

Allir leikir skulu fara fram skv. knattspyrnulögum KSÍ og reglugerð KSÍ um
knattspyrnumót, nema annars sé getið í reglum þessum.