Norðurbær – Suðurbær 2010 – Reglur

1.
Norðurbær – Suðurbær er fyrir knattspyrnumenn frá Sandgerði 30 ára og eldri. Verði menn þrítugir á árinu teljast þeir gjaldgengir.

2.
“Knattspyrnumaður” frá Sandgerði er sá sem með einhverjum hætti hefur tengst knattspyrnu í Sandgerði. Innan þess ramma eru m.a. stuðningsmenn, leikmenn, þjálfarar, stjórnarmenn og svo framvegis.

3.
Þátttakendur skulu skrá sig hjá undirbúningsnefnd og verða gjaldgengir eftir að hafa innt af hendi mótsgjald. Mótstjórn raðar þátttakendum í lið og skal við það taka mið af aldri og getu leikmanna, þannig að sem jafnast verði í liðum. Mótstjórn gefur liðum nafn. Mótsgjald 2010 er 6.500 kr og skal greitt inn á reikning nr: 1190-05-004874 kt 680683-0269. Muna skal að setja nafn og kennitölu í skýringu við greiðslu. Allur ágóði af mótinu rennur til Knattspyrnufélagsins Reynis.

4.
Mótið er tvískipt þar sem annarsvegar er spilaður minnibolti og hinsvegar vítakeppni.
5.
Spilaður er sjö manna bolti með einum markverði og sex útileikmönnum. Hvert lið skal skipað að minnsta kosti 8 leikmönnum, s.s. einn markvörður og sex útileikmenn. Spilað er í tveimur aldursskiptum deildum, yngri deild er fyrir 30 ára og eldri og betri deild er fyrir leikmenn ca 50 ára og eldri. Fjöldi þátttakenda í hvorum aldurshópi skal vera sem jafnastur. Hvert lið skal hafa liðstjóra og vatnsbera, það eru tilvalin hlutverk fyrir þá sem ekki treysta sér lengra en að hliðarlínu en er skilt að vera í keppnistreyju.
Veitt verða sigurverðlaun í báðum deildum.

6.
Í vítaspyrnukeppni keppa liðin með vítaspyrnum, teknum af öllum leikmönnum hvors liðs á sama mark. Hlutkesti ræður hvort liðið byrjar, en þau skiptast á um að spyrna. Sé jafnt eftir að allir leikmenn hafa spyrnt, skal vítaspyrnukeppninni fram haldið með einni spyrnu á hvort lið, þar til úrslit fást. Sami leikmaður getur ekki spyrnt aftur fyrr en allir samherjar hans hafa spyrnt. Keppt verður í liðakeppni þar sem sigurverðlaun verða veitt. Vítakóngur verður að auki krýndur.

7.
Þeir leikmenn í eldri deild sem telja sig vera í of góðu líkamlegu formi er heimilt að skrá sig til keppni í yngri deildinni en fá ekki forgjöf. Leikmönnum í yngri deild er ekki heimilt að skrá sig í keppni í eldri deild. Þeir sem skrá sig til keppni í vítaspyrnum mega ekki taka þátt í fótboltanum og sömuleiðis gilda sömu reglur um þá sem skrá sig til keppni í fótboltanum þ.e. mega ekki taka þátt í vítakeppninni.

8.
Leiktíminn er 2 x 6 mínútur. Leikið er á minnivöllum.

9.
Ekki er leyfilegt að nota leikmenn sem spilað hafa, eða verið á leikskrá með meistaraflokki sama ár í mótsleik á vegum KSÍ.

10.
Mótsstjórn skal ákveða fyrirkomulag á keppni hverju sinni og skal hún hafa hliðsjón af þátttöku við þá ákvörðun. Reikna skal þó með að allir leiki við alla í hvorri deild og á það einnig við um vítaspyrnukeppnina.. Mótsstjórn skal hafa til hliðsjónar hvar menn voru/eru búsettir í Sandgerði, þ.e. skipta liðum upp þannig að sem flestir norðurbæjarmenn verði saman og að sem flestir suðurbæjarmenn verði saman. Til að auka stemmningu meðal bæjarbúa skulu treyjulitir verða þeir sömu og eru notaðir til að hverfaskipta Sandgerðisbæ á Sandgerðisdögum, þ.e. Rauður, Grænn, Blár og Gulur. Ekki er þó sjálfgefið að t.d. leikmaður sem býr í rauða hverfinu spili í rauðu liði. Mótsstjórn ákveður í hvaða lit viðkomandi lið spila en þó skal miða við að bláu liðin séu skipuð Norðurbæjarmönnum. Þurfi að færa menn frá Suðurbæ yfir í Norðurbæ vegna ójafnrar skiptingar skal byrjað á yngsta manni í viðkomandi aldursflokki, síðan þeim næstyngsta og svo koll af kolli.

11.
Ef lið eru jöfn að stigum gilda reglur KSÍ um röð liða.

12.
Sérstaklega skal tekið fram að sömu reglur gilda um sendingar til markvarðar og gilda í deildarkeppnum á vegum KSÍ.

13.
Leikið verður á aðalleikvangi Reynisfélagsins.

14.
Ekki er heimilt að spila á grasskóm í keppninni.

15.
Í staðin fyrir rautt spjald þá gefum við blátt spjald fyrir grófar tæklingar, ljótt orðbragð eða slæma framkomu og fær viðkomandi þá 2 mínútna brottvísun. Viðkomandi er sem sagt rekinn út af í 2 mínútur til að kæla sig niður, en annar liðsfélagi má koma strax inná og síðan getur viðkomandi komið aftur inn á eftir það.

16.
Allir leikir skulu fara fram skv. knattspyrnulögum KSÍ og reglugerð KSÍ um knattspyrnumót, nema annars sé getið í reglum þessum.

17.
Yfirskrift mótsins er HÁTTVÍSI, PRÚÐMENNSKA OG SAMBABOLTI. Leikmenn skulu leitast við að forðast allt það háttalag sem getur stefnt líkamlegri og andlegri heilsu andstæðinga og samherja í hættu, leikmenn skulu umsvifalaust viðurkenna fyrir dómara hafi þeir gerst brotlegir við knattspyrnulög og leikmenn skulu draga fram alla þá kunnáttu í knattleikni sem þeir hafa viðað að sér á ferlinum til þess að skemmta áhorfendum hið mesta.

Þeir sem koma með því hugarfari að tækla allt sem hreyfist verða útilokaðir frá keppni næstu 10 ár en hafa mætingarskyldu og verða skráðir í sjósund á meðan bannið er í gildi.

Í stuttu máli er sem sagt bannað að tækla og brúka munn.