Gunnar Guðjónsson

Gunnar GuðjónssonFyrsta Skallaboltann á Gunnar Guðjónsson

Það er vel við hæfi að fyrsta skallann eigi kempan Gunnar Guðjónsson forstjóri Opinna Kerfa sem hafa verið einir af aðalstyrktaraðilum fótboltamótsins Norðurbær vs. Suðurbær undanfarin ár.

Gunnar var leikmaður mfl. Reynis á árunum 1988-1997. Hann lék nánast allan ferilinn sem miðvörður sem kallaði ekki allt ömmu sína á vellinum, þótti harður í horn að taka og lutu margir framherjarnir í gras eftir viðskipti sín við Gunna. Við skulum vinda okkur í leikskýrslu Gunna:

Fullt nafn?
Gunnar Guðjónsson

Gælunafn?
„Gunni rauði“

Aldur?
43ja ára – fæddur 1969

Giftur / sambúð?
Í sambúð með æskuástinni – Ingu Sigríði Harðardóttur – Saman eigum við 3 börn

Börn?
Ólöf Rósa (18 ára), Hörður Ingi (14 ára) og Bryndís Halla (5 ára)

Foreldrar?
Guðjón Ólafsson og Ólöf Gunnarsdóttir

Hvar varstu alinn upp/búsettur í Sandgerði, búsettur núna?
Alinn upp í Suðurbænum á Suðurgötunni til að byrja með en svo á Ásabrautinni. Hef verið búsettur í Hafnarfirði síðan 1998.

Norðurbær eða Suðurbær?
Suðurbær að sjálfsögðu

Hvaða stöðu spilaðirðu?
Miðvörður fyrir allan peninginn

Hvenær lékstu þinn fyrsta leik með meistaraflokki?
1988

Með hvaða liðum lékstu á ferlinum?
Í meistaraflokk lék ég bara með Reyni Sandgerði

Hvað skoraðir þú mörg mörk á ferlinum?
Ekki fleiri en 10

Veistu hve marga leiki þú spilaðir í mfl.?
100+

Gunnar Guðjónsson

Eftirminnilegasta dómaraatvikið?
Vandræðalegasta atvikið sem ég upplifði sem Reynismaður var líklega þegar rautt spjald var gefið rútubílstjóra Leiknis R í kjölfar morðtilraunar langsvelts varamanns Reynismanna. Gerðist fyrir allt of mörgum árum og af virðingu við þá sem þátt áttu að máli þá BLURRA ég nöfnin þeirra.

Eftirminnilegasta markið sem Reynir skoraði?
Skallamark sem Jónas Gestur Jónsson skoraði á móti Hvöt á Sandgerðisvelli þegar Reynismenn voru 9 á móti 11 en markið tryggði okkur sæti í 2. Deild

Eftirminnilegasta markið sem Reynir fékk á sig?
Líklegast er það jöfnunarmark Tindastóls á Sandgerðisvelli „Janusarárið svokallaða“ en með jafntefli þá tryggðu Stólarnir veru sína í deildinni en sendu okkur niður.

Varstu hjátrúarfullur fyrir leiki ( ef já, hvernig þá)?
Nei en ég hélt allaf sömu rútínunni fyrir leiki….. mikið kaffi og svo á dolluna og þá klár

Hvaða liði hefðir þú ekki getað hugsað þér að spila með?
Hef aldrei þolað Stjörnuna

Erfiðasti andstæðingur?
Eyjólfur Sverrisson og Ejub Purisevic

Auðveldasti andstæðingur?
Einar Þór Daníelsson yfirnöldrari

Eftirminnilegasti samherjinn?
Arnar Óskarsson – spilaði lengi við hlið hans og náðum við vel saman

Eftirminnilegasti leikurinn?
Reynir vs Víðir í síðustu umferð í 2. deild 1996 á heimavelli. Reynir vann 3-0 og fóru upp í fyrstu deild. Víðismenn klæddu sig í búningana út í Garði og sá dónaskapur kveikti í okkur. Víðir dugði jafntefli en fyrir framan rúmlega þúsund áhorfendur rústuðum við þeim með 2 mörkum frá Kevin Docherty og einu frá Grétari Hjartar.

Mestu vonbrigði?
Hnémeiðsli árið 1997 sem urðu til þess að ég hætti fljótlega eftir það í boltanum

Grófasti samherjinn?
Mjög jöfn keppni á milli Pálmars Guðmunds og Sigga Björgvins

Hver var mesti höstlerinn í Reynisliðinu?
Beggi Poppari var alveg með þetta

Hefurðu skorað sjálfsmark?
Því miður já,,, Sævar Gíslason Selfossi notaði mig sem batta

Segðu okkur frá skemmtilegu atviki sem gerst hefur í leik:
Eitt af skemmtilegri atvikum sem ég man eftir var 1991 og við vorum að spila við Aftureldingu og með góða forustu. Pabbi var að þjálfa og undir lok leiks skipti hann sér inn og við fórum saman í framlínuna. Það var ekki að spyrja að því þegar hann fékk boltann þá byrjaði ég að hlaupa og öskraði síðan „pabbi, pabbi…. gefð´ann“ Leikmenn Aftureldingar urðu svo hissa og misstu athyglina þannig að ég slapp einn í gegn eftir frábæra sendingu frá gamla og skoraði

Eitthvað sem þú vilt bæta við?
Áfram Reynir og munið að það fást engin verðlaun fyrir að vera efstir eftir fyrri umferðina,,, það þarf að klára mótið

Ef þú mættir breyta einni reglu í fótbolta, hverju myndir þú breyta?
Ekki viss um að vilja breyta einhverri reglu….. fótboltinn er alltaf að verða skemmtilegri… harðari og hraðari. Ég myndi helst vilja hækka launagreiðslur hjá dómurum og auka við lágmarkskröfur um líkamlegt og andlegt atgervi þeirra… þá fengjum við hæfari menn í djobbið. Einnig er ég þeirrar skoðunar að notast eigi meir við tæknina til að skera úr um vafaatriði sbr. sjónvarpsupptökur.

Uppáhaldslið í enska boltanum?
LIVERPOOL

Uppáhaldsknattspyrnumaður allra tíma?
Tony Adams leikmaður Arsenal fyrir all mörgum árum…. atvinnumaður í heimsklassa, mætti seint og illa á æfingar, fékk að tækla og krumpa vesæla andstæðinga vikulega, reykti og drakk eins og versta pöbbarotta, ók um á flottum bílum og óð í kvenfólki…. fyrir þetta fékk hann síðan fúlgu af peningum. ToppmaðurJ

Besti íslenski knattspyrnumaðurinn fyrr og síðar?
Gylfi Sigurðsson er á góðri leið þangað. Svakalega mikill atvinnumaður.

Gunni skallar að lokum boltann áfram á Reynismanninn Jónas Þórhallsson

Við þökkum Gunna kærlega fyrir greinargóða og skemmtilega leikskýrslu