Það verður allt undir á Sandgerðisvelli nk föstudag þegar stórveldin Norðurbær og Suðurbær leiða saman sveina sína.
Staðan í einvígi liðanna er þannig að bæði lið hafa unnið keppnina 6 sinnum til þessa og verður því allt undir á föstudaginn og spurning hvoru liðinu tekst að hampa bikarnum góða í sjöunda sinn og halda montréttinum næsta árið.
Þetta verður sannkölluð fótboltaveisla og augnakonfekt fyrir aðdáendur Tiki Taka fótboltans og eru áhorfendur hvattir til að mæta tímanlega til að ná góðu stæði á vellinum því búist er við mjög góðri mætingu.
Veðurspáin ætlar ekki að láta sitt eftir liggja og eru miklar líkur á sól og brakandi þurrki á meðan á leik stendur.
Leikmenn mæta í hús kl 15:00 og munu veita eiginhandaráritanir til þeirra sem vilja
Liðin ganga út á völl kl 15:50 og hefjast leikar á vítakeppni.
Þar á eftir munu lið Gæðinga og Fola mætast í 7 manna fótbolta og verða leikirnir spilaðir samtímis.
Leiktími verður 2×15 til 20 mínútur fer eftir því hversu gott veðrið verður.
Verði liðin jöfn að stigum eftir leikina þá mun fara fram vítakeppni til að ákvarða sigurvegara.
Dómgæsla verður í öruggum höndum milliríkjadómarans Þorvalds Árnasonar og landsdómarans Arnars Þórs Stefánssonar.
Liðslæknir verður að sjálfsögðu á staðnum fyrir bæði lið og verður hann einkennisklæddur í hvítan slopp með rauðum kross. Um leið og einhver meiðist, fer í fýlu eða örmagnast, þá mætir læknirinn með orkudrykk. Honum er heimilt að fara inná völlinn og “lækna” leikmenn hvenær leiks sem er, án afskipta dómara.
Fyrir þá sem eru að keppa í fyrsta sinn þá skulum við rifja upp það sem stendur í 5. grein úr reglum mótsins
HÁTTVÍSI, PRÚÐMENNSKA OG SAMBABOLTI er yfirskrift mótsins nú sem fyrr.
Leikmenn skulu leitast við að forðast allt það háttalag sem getur stefnt líkamlegri og andlegri heilsu andstæðinga og samherja í hættu, leikmenn skulu umsvifalaust viðurkenna fyrir dómara hafi þeir gerst brotlegir við knattspyrnulög og leikmenn skulu draga fram alla þá kunnáttu í knattleikni sem þeir hafa viðað að sér á ferlinum til þess að skemmta áhorfendum hið mesta.
Þeir sem koma með því hugarfari að tækla allt sem hreyfist verða útilokaðir frá keppni næstu 10 ár en hafa mætingarskyldu og verða skráðir í sjósund á meðan bannið er í gildi.
Í stuttu máli er sem sagt bannað að tækla og brúka munn.
Umfram allt þá erum við að fara að hafa gaman og skemmta okkur 🙂