Fótboltaveislan Norðurbær-Suðurbær fer fram í 10. sinn föstudaginn
25. ágúst á Reynisvellinum í Sandgerði.
Mótið verður fjölmennt og er 91 þáttakandi skráður til leiks á þessum tímamótum en viðburðurinn er á 10 ári.
Keppt verður um hvort hverfið hefur montréttinn næsta árið og veglegan farandbikarinn sem Ísspor lagði til í húfi.
Afmælisdagskráin lítur svona út:
Kl 15 Mæting í Reynisheimilinu þar sem keppnistreyjur verða afhentar að venju.
Endurfundir, kaffi og létt upphitun.
Dómarar verða Fifa-dómararnir Þorvaldur Árnason og Gunnar Jarl Jónsson besti dómari pepsi-deildarinnar undanfarin tvö ár.
Kl 15:50
Liðsmenn ganga sem leið liggur fram fyrir hús að anddyri þar sem vígður verður skilti/skjöldur sem staðsettur verður á framanverðu félagsheimilinu til frambúðar. Fulltrúar yngri kynslóða Knattspyrnudeildar Reynis svipta hulunni af merkinu.
Gengið verður svo fylktu liði inn á völlinn við undirspil Meistaradeildar lagsins og Jóa Útherja í flutningi Ómars Ragnarssonar, einstök upplifun.
Myndataka liða.
Ljósmyndari viðburðarins verður Ólafur Hannesson frá Photo26
Kl 16 Flautað til leiks þar sem þeir keppendur sem skráðu sig til leiks í vítaspyrnum hefja keppni. Markmenn verða þeir Rúnar Gissurarson og Jonathan Fraber.
Þar næst fer fram leikur gæðinga, þar á eftir fara fram tveir leikir trippa og fola á sama tíma.
Allir keppendur fá mánaðarskammt af Lýsi og liðamíni.
Verðlaunafhendingar munu fara fram í veislunni um kvöldið.
Kl 18 Móti lokið og keppendur ættu að hafa góðan tíma til að sturta sig og skipta yfir í betri fötin fyrir saltfiskveisluna góðu.
Kl 19:30 Húsið opnar
Kl 20 Hátíðin sett.
Veislustjóri verður hinn eini sanni Bjarni Töframaður Baldvinsson. Bjarni var fyrir nokkrum árum aðallega þekktur fyrir töfrabrögð og spilagaldra. Í dag fer minna fyrir töfrum og spilagöldrum í hans framkomu en þess í stað hefur Bjarni, undanfarin ár, getið sér gott orð sem veislustjóri og uppistandari.
Saltfiskurinn klár á borðum og er það Örn Garðarson matreiðslumeistari og eigandi Soho veisluþjónustu sem sér um að matreiða kræsingarnar. Mun hann bjóða upp á 10 ára afmælisgulan fyrir lengra komna, léttsaltaðan, afmælissaltfiskrétt frá Katalóníu a‘la Örn, hefðbundið meðlæti eins og kartöflur, rófur, hvítlaukssmjörbræðinginn fræga, hamsa, þrumara ofl.
Nýtt merki viðburðarins frumsýnt.
Verðlaunaafhendingar, gamanmál að hætti hússins þar sem söngur og gleði ráða ríkjum.
Veglegur happdrættisvinningur sem dreginn verður úr aðgöngumiðum veislugesta.
Einn allra besti söngvari landsins Eyþór Ingi Gunnlaugsson stígur á stokk en hann hefur látið vel til sín taka undanfarin ár og afrekað ótrúlega mikið á sínum stutta ferli. Eyþór Ingi er mörgum hæfileikum búinn og virðist jafnvígur sem söngvari, lagahöfundur og leikari. Það sem færri vita er að Eyþór er einnig frábær eftirherma og er aldrei að vita nema hann hendi í einn karakter á staðnum. Það er allavega alveg öruggt að hann á eftir að láta vel í sér heyra og biðjum við veislugesti að halda sér fast því það er búist við minnst 25 mtr á sekúndu á meðan á söng stendur.
Eftir viðburðinn verða rútuferðir í boði Margrétar Eggertsdóttur eiganda Ferðaþjónustu Reykjaness upp í samkomuhús þar sem hljómsveitin Stuðlabandið mun halda uppi fjörinu fram á rauða nótt.
Stuðlabandið er ein vinsælasta ballhljómsveit landsins í dag. Alvöru íslenskt sveitaball lýsir sveitinni fullkomlega en þessir gleðigjafar hafa undanfarin ár vakið gríðarlega athygli fyrir stórgóða frammistöðu á dansleikjum víðvegar um landið. Hljómsveitin er þekkt fyrir frábæra spilagleði, líflega sviðsframkomu og gott lagaval sem er hannað til þess að halda gestum á dansgólfinu allan tímann.
Veislugestir fá miðann á dansleikinn á kr 2500 á hurð.